145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:06]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Forseti. Það hefur verið um það ritað að það voru bæði Hjörleifur og Ingólfur, landnámsmennirnir sem komu til Íslands fyrst og hafa verið nefndir sem fyrstu landnámsmennirnir. Ingólfur tók sér bólfestu í Reykjavík og Hjörleifur við Hjörleifshöfða. Samt er Ingólfur alltaf nefndur sem fyrsti landnámsmaðurinn umfram Hjörleif. Ég hef stundum sagt að strax þá hafi menn verið farnir að halla á hlut landsbyggðarinnar. Nú er Hjörleifshöfði til sölu og upp af Hjörleifshöfða nokkuð mikið landsvæði sem liggur síðan beint upp að þjóðlendu. Það er gott dæmi um landsvæði sem ætti auðvitað að vera í eigu þjóðarinnar. Það sama má segja um Jökulsárlón undir Breiðamerkurjökli sem á auðvitað að vera í eigu allra landsmanna.

Meðal þess sem menn gæta í þessum görðum og á þessum svæðum, ekki bara hér á landi heldur um allan heim, er ekki bara náttúruupplifun heldur líka menningarminjar og saga. Það er hluti af þeirri umsýslan sem Þingvallanefnd hefur með þjóðgarðinum á Þingvöllum að fara einmitt með það sem hv. þingmaður nefnir, þinghelgina. Það er mjög mikilvægt að viðhalda þeim tengslum sem eru á milli Alþingis og Þingvalla sem tryggð eru með aðkomu þingmanna að Þingvallanefnd með einhverjum hætti. Ég held að það sé alveg prýðileg hugmynd hjá hv. þingmanni og góð hugsun í því fólgin að viðhalda einhverri slíkri tengingu þannig að þinghelgin og það hlutverk og sá þáttur þjóðgarðsins (Forseti hringir.) á Þingvöllum væri enn þá tengdur þinginu með einum eða öðrum hætti.