145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að endingu hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnar Íslands að meiri kraftur verði settur í þessi mál. Ég veit að lítill tími er eftir af umboði núverandi ríkisstjórnar en engu að síður eru miklar aðgerðir sem grípa þarf til. Það er meira sem hægt er að gera. Ríkisstjórnin og stjórnvöld á Íslandi geta gert meira en felst í þessu samkomulagi því að það eru tækifæri fyrir okkur til að setja raunverulegt fjármagn og raunverulegt afl í rannsóknir á súrnun sjávar. Það eru tækifæri fyrir okkur til að nota jöklana okkar til að sýna fram á áhrif loftslagshlýnunar. Við eigum auðvitað að vera í fararbroddi í þessum efnum. Það eru tækifæri til þess. Dæmi frá Maldíveyjum sýna hvernig litlar þjóðir, lítil lönd, geta gert hluti sem skipta mjög miklu máli. Þar var forseti eða forsætisráðherra sem hélt fund neðan sjávar þegar hann tók við völdum til að vekja athygli á því að ef svo héldi fram sem horfði stefndi í að eyjarnar mundu einfaldlega sökkva enda eru þær ekki nema í nokkurra metra hæð yfir sjávarmáli.

Ég er ekki að mælast til þess að ríkisstjórnin fundi neðan sjávar en ég held að með ýmsum táknrænum hætti gætu Íslendingar verið brautryðjendur í því að vekja almenning um heim allan til meðvitundar og vakningar um það að eitt brýnasta viðfangsefni heimsbyggðarinnar í dag er að koma með raunverulegar aðgerðir til að sporna við hlýnun jarðar og takast á við þær afleiðingar sem það hefur í för með sér fyrir jarðarbúa alla.