145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég byrja á að fagna því að þetta mál sé fram komið og þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Það skiptir máli að við sýnum að okkur sé alvara og fullgildum samninginn sem fyrst.

Það sem mig langar mest að ræða er að þegar búið er að fullgilda eitthvað svona þurfum við að fara að gera eitthvað. Það er stóra verkefnið. Mér finnst við á þinginu hafa í gegnum tíðina sammælst um að það skipti máli að við reynum að leggja okkar af mörkum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en það verður oft minna úr verki. Við setjum okkur markmið og gerum áætlanir en svo finnst manni árangurinn alltaf heldur lítill. Það hafa verið vonbrigði á síðustu árum að sjá ekki t.d. samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngunum og frá bílaumferð o.s.frv. Eitthvað þurfum við að fara að spýta í lófana þarna. Hvað gerir maður þá? Ég held að við hér inni þurfum að fara að sammælast um að grípa til róttækra aðgerða og reyna að ná saman um þær. Ég hef til að mynda dáðst að því hvernig Reykjavíkurborg hefur nálgast þessa vinnu, með því að ná saman atvinnulífinu og opinberum aðilum. Það hafa rúmlega 100 fyrirtæki í Reykjavík skrifað undir markmiðin með borginni um að draga úr losun. Mér finnst við þurfa að ná betur saman á stærri skala til að ná utan um þetta verkefni. Það dugar ekki að nokkur ráðuneyti hittist og fari yfir málin og setji sér markmið, við þurfum að fara að tengja fyrirtækin og atvinnulífið betur inn í það. Það eru þegar komnir vísar að því. Nú þurfum við að fara að gera það á stærri skala.

Eitt verkefni sem mér hefur fundist áhugavert og ég hef sjálf lagt fram tillögur um í þinginu er að reyna að freista þess hvað samgöngurnar og bílana varðar að ná þverpólitískri samstöðu um að græn ökutæki og líka orkugjafarnir sjálfir fái skatta- og gjaldagrið þangað til við höfum náð X prósentu af slíkum bifreiðum eða slíkum ökutækjum sem hlutfalli af þeim sem eru á vegunum, þ.e. við getum miðað við það þegar við erum búin að ná 10% af bílaflotanum inn sem grænum ökutækjum eða 15% eða 20% eða hvað það er sem við teljum viðunandi, það sé ekki fyrr en þá sem þessi hefðbundnu gjöld fara að koma á þau ökutæki líka. Menn þurfa að setja sér einhver markmið og ráðast í aðgerðir þeim tengdum. Það fyndist mér góð leið. En til að ná því markmiði þyrftum við að samþykkja um það ályktun á þingi og jafnvel ná einhvers konar samkomulagi um það þvert á flokka að bílaflotanum, þ.e. græna hluta bílaflotans, yrði gefinn gjalda- og skattaleg grið þar til við höfum náð markmiðinu. Það er ein leið. Hún er ekkert fullkomin því að auðvitað nýta þessi ökutæki líka vegina og það þarf að byggja þá upp. En það breytir því ekki að ef við ætlum að ná stórtækum árangri þurfum við að grípa til svolítið róttækari aðgerða en við höfum gert hingað til.

Talandi um bílaflotann þá hefur græni bílafloti búið við það að við veltum á undan okkur skattalegum griðum eins og t.d. virðisaukaskattsleysi á rafmagnsbíla frá ári til árs. Það er ekki vænleg aðferð. Þeir sem flytja þá inn þurfa að geta haft fyrirsjáanleika, þ.e. menn þurfa að geta séð til lengri tíma, gert áætlanir um innkaup á slíkum bifreiðum til lengri tíma. Þá þarf þetta umhverfi að vera fyrirsjáanlegra en við höfum búið um það hingað til, svo þetta sé nefnt.

Mér finnst áhugavert og jákvætt, svo maður dragi fram það sem vel er gert, að sjá hvernig sjávarútvegurinn hefur verið að vinna. Þar sjáum við í tölunum mælanlegar breytingar á útblæstri frá skipum. Það er eitthvað sem greinin sjálf telur mikilvægt út frá því að þarna er verið að veiða matvæli og það skiptir máli. Við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta í hafinu, að losunin verði ekki meiri en hún er vegna hættunnar á súrnun sjávar og áhrifum þess á greinina sem slíka og þá íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.

Við eigum mjög mikið undir hér á landi sem eyríki sem nýtir sjávarauðlindina með jafn ríkum hætti og við gerum. Þetta er ein af undirstöðuatvinnugreinum okkar. Það má gefa þeim það sem það eiga að þau hafa staðið sig mjög vel.

Ég vona að okkur lánist að setja niður einhvers konar áætlun, vonandi þvert á flokka. Það væri skemmtilegt ef Alþingi ákvæði í sameiningu að fara í þessa vinnu þvert á alla flokka þar sem menn settust yfir það fyrir alvöru hvaða verkefni eða markmið menn vildu setja sér, hvaða verkefni ættu heima þar undir og tengdu síðan atvinnulífið, stofnanirnar og sveitarfélögin betur inn í þetta, að við byggjum til alvörunetverk, getum við kannski sagt, utan um þau verkefni. Við höfum svolítið verið hvert í sínu horni að vinna að þessum málum. Það gengur ekki lengur ef við ætlum að ná stórtækum árangri, sem nauðsynlegur er.

Síðan er annað verkefni sem mér finnst áhugavert. Ef við skoðum samsetninguna á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi á vef Umhverfisstofnunar sést að stærsti hlutinn kemur frá iðnaði og efnanotkun. Það er liður sem hefur farið vaxandi. Við eigum að fara vandlega yfir hvernig við getum minnkað losun frá þeim lið. Það gerum við ekki öðruvísi en með atvinnulífinu og stofnunum.

Svo er annar þáttur áhugaverður, og hafa komið fram fyrirspurnir frá þingmönnum eins og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Sigríði Á. Andersen, sem er um áhrif framræstra mýra eða framlags þeirra til losunar gróðurhúsalofttegunda og hlutdeild þar. Endurheimt votlendis er stórt verkefni sem við þurfum að ráðast í og halda áfram. Það á að vera þarna líka.

Ég ætla ekki að benda á neinn í þessari umræðu og segja að einhver hafi ekki staðið sig heldur vil ég frekar koma með ákall til okkar allra um að við reynum að taka höndum saman um þetta verkefni. Róttækra aðgerða er þörf. Markmiðið um að takmarka losunina og halda hitabreytingum henni tengdum við 2° gagnast ekki eyríkjum sem eru að hverfa undir sjó út af loftslagsbreytingum. Þau halda því fram að þar þurfi menn að miða við 1,5°. Aðrir halda því fram að ef við höldum öllu nákvæmlega eins og það er núna þá getum við kannski rétt náð 1,5°, haldið okkur þar. Niðurstöður allra rannsókna, og ég held að þetta sé óumdeilt, sýna okkur að róttækra aðgerða er þörf, aðgerða sem krefjast þess, og ég hef svo sem notað þá líkingu áður hér, að við rífum í handbremsuna á þeim sviðum þar sem mest losun er. Afleiðingarnar eru nú þegar mjög alvarlegar og geta beinlínis orðið skelfilegar. Þar eru hagsmunir eins og okkar, sem eru súrnun sjávar, áhrifin á lífríkið í hafinu í kringum okkur. Síðan eru líka þjóðir um heim að sökkva í sæ vegna þessa vágests, sem er af okkar eigin völdum.

Við sköpuðum þetta. Það er okkar að gera þessar breytingar. Það skiptir máli að það byrji hér einhver alvöruvinna og að við tökum þetta upp úr skotgröfum og reynum að hefja alvörusókn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.