145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki tefja þennan fund lengi. Ég kem aðallega hingað upp vegna þess að þetta er 1. umr. um þetta mikilsverða frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar þar sem menn segja að mikil kerfisbreyting sé á ferðinni. Það er einhver einföldun. Samt sem áður verður ekki auðvelt fyrir fólk að átta sig því að jaðaráhrifin af skerðingum sem verða áfram í kerfinu eru ekki ljós til dæmis. Ég tel því að þessi kerfisbreyting sem menn tala um sé nú frekar í orði en á borði.

Ég treysti því líka, virðulegi forseti, að málið komi ekki til 2. umr. í þinginu vegna þess að það er 8. september í dag og þingi á að ljúka, ég veit ekki hvenær, það á að kjósa 29. október, held ég að búið sé að ákveða. Ég skil ekki hvernig menn ætla að koma málinu í gegn vegna þess að það hlýtur að fara til umsagnar og það tekur minnst hálfan mánuð, síðan á eftir að ræða það í nefndinni og það á eftir að ræða þetta í þingflokkum. Við verðum að hafa tíma til að skoða hvernig þessi svokallaða kerfisbreyting virkar fyrir fólk af því að ég tel að orðið sem notað er, þ.e. kerfisbreyting, er bara orð. Ég met það svo eftir að hafa mjög svo skautað yfir málið eins og stundum er sagt. Þá á eftir að fara yfir það í nefndinni og svo ætti eftir að kynna mér það í þingflokki hvað kemur út úr því og svona. Það er bara mín skoðun að ekki sé hægt að klára málið á því þingi sem eftir stendur. Þetta er allt, allt of stórt til þess.

Síðan vil ég segja, ég vil bara nefna tvennt sem mér finnst mjög einkennilegt hérna. Það er í fyrsta lagi það að kostnaður á fyrsta ári er 5 milljarðar, held ég að ég skilji rétt. Já, áætlaðar árlegar kostnaðarbreytingar á nýju kerfi á árunum 2017–2040 eru á töflu á bls. 34. Og 2017 á breytingin að kosta okkur 5,3 milljarða. En fólkið sem er í lægsta flokknum, fólkið sem virkilega þarf mest, það á ekki að fá eina litla krónu. Ekki krónu. Við ætlum að fara að breyta í orði einhverju kerfi, borga fimm komma eitthvað milljarða, og við ætlum ekkert að láta fara til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Síðan erum við að koma með sveigjanlegan eftirlaunaaldur, það er mjög gott. Við erum að hvetja fólk til þess að vinna meira. Eldra fólk getur unnið af því að það hefur meiri starfsgetu og um leið ætlum við að lækka frítekjumarkið vegna atvinnutekna. Á blaðsíðu 15 í frumvarpinu stendur: „Þó kom fram að kerfisbreytingin geti að vissu marki leitt til þess að heildartekjur lítils hóps“ — allt í lagi þó það sé lítill hópur — „ellilífeyrisþega, sérstaklega þeirra sem hafa atvinnutekjur á bilinu 105.000–374.000 kr.“ — það er nú svolítið mikið, svolítið stórt bil — „geti lækkað. Stafar það af því að frítekjumark vegna atvinnutekna er mun hærra en frítekjumörk vegna lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna í núverandi kerfi.“ Já, já, það getur vel verið. En af hverju þurfum við að breyta því?