145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það er rétt að staldra við það að í dag hefðum við gengið hér undir eðlilegum kringumstæðum til nýs þings. Í dag er annar þriðjudagur í september og í dag hefði 146. þing hafist að öðru óbreyttu. Í dag horfumst við í augu við þá pólitísku staðreynd að við erum að upplifa mjög óvenjulega tíma. Við erum að horfast í augu við þá staðreynd að fráfarandi ríkisstjórn sá sig tilneydda að boða til þingkosninga áður en umboð hennar var í raun útrunnið. Við erum að sjá núna, virðulegur forseti, þegar við erum komin fram í september, mjög alvarlegar innantökur í báðum stjórnarflokkunum. Staðan er orðin þannig að það eru orðnar aðkallandi spurningar um hvort boðlegt sé að ætla Alþingi að ljúka málum undir þessum kringumstæðum.

Forseti. Stjórnmál snúast um traust og stjórnmál snúast um það að horfa um öxl og horfa fram á veginn. Við eigum að muna þegar við göngum til kosninga í haust hvað það var sem gerðist, að alþjóðleg umfjöllun um skattaskjól og aflandsfélög, Panama-skjölin sem voru afhjúpuð, leiddu það í ljós að forusta íslensku stjórnarflokkanna var persónulega vafin inn í þau mál sem þar voru afhjúpuð. Hversu trúverðugt er það, virðulegi forseti, að þeir flokkar takist á hendur þau mikilvægu málefni sem blasa við í íslensku þjóðlífi, sem er sú staðreynd að innviðir samfélagsins eru í uppnámi, heilbrigðiskerfið, vegakerfið og menntakerfið eru öll í þeirri stöðu að taka þarf ærlega til hendinni. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar og sú ríkisstjórn verður félagshyggjustjórn.