145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[15:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fer hæstv. ráðherra núna í það að ákveða hjá hvaða þingmönnum liggi meiri vitneskja um rammaáætlun? Er það virkilega svo? Í umhverfis- og samgöngunefnd, ef menn ætla að leggja einhvern slíkan dóm á þingmenn og þeirra mögulegu getu til að fjalla um þetta mál, þá sitja nú hér fyrrverandi iðnaðarráðherrar sem þá fóru með þennan málaflokk og fyrrverandi umhverfisráðherra sem jafnframt kom að gerð rammaáætlunar á síðasta kjörtímabili. Ef hæstv. ráðherra vill fá ferilskrá þingmanna til að kanna getu þeirra til að fjalla um málið þá er það sjálfsagt. Hún er ansi þung og öflug í umhverfis- og samgöngunefnd.

Það sem hér er um að ræða er viðsnúningur á röksemdafærslu fráfarandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, þegar hann sagði á þessu kjörtímabili að það væri í þessu tilfelli þar sem eingöngu væri um að ræða flutning á Hvammsvirkjun yfir í nýtingarflokk, út af því tilfelli að þessu sinni. — Hæstv. ráðherra getur hrist höfuðið eins og hún vill, en ég get náð í þessa ræðu þar sem vitnað er beint í fyrrverandi ráðherra (Forseti hringir.) þar sem hann rökstuddi það að málið færi í atvinnuveganefnd að því sinni vegna þess að eingöngu væri fjallað um nýtingarflokkinn. En hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) metur það ekki hvar mesta þekkingin í þinginu liggur á málaflokknum.