145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hvarflaði að mér áðan að ræða um fundarstjórn og kvarta undan því að andsvör séu einungis leyfð tvisvar sinnum fyrir hvern þingmann vegna þess að þetta er samtal sem ég mundi gjarnan vilja halda áfram nokkur skipti í viðbót, (Gripið fram í.) kannski komum við því að síðar hér á eftir.

Hv. þingmaður spyr: Hvað er pólitík? Ég get ekki gefið greinargott svar við því hér og nú, en þegar kemur að þessu máli mundi ég halda að í sínu einfaldasta sniði væri þetta spurning um náttúruvernd á móti iðnaði þar sem það fer ekkert alltaf saman. Stundum fer það saman. Ég er t.d. almennt hlynntur því eða er þeirrar skoðunar almennt að við þurfum fallvatnsvirkjanir til þess að búa til orku með skynsamlegum hætti. Við þurfum að búa til orku, það er ekki beinlínis valkvætt. En hins vegar finnst mér samt sem áður skorta á það í ræðu hv. þingmanns að þessari pólitísku togstreitu eins og við kölluðum það áðan sé tekið fagnandi.

Ég heyrði hv. þingmann gagnrýna það áðan að einhver kallaði þetta ekki lögformlegt ferli, eitthvað sem ég átta mig ekki enn þá á hvað hv. þingmaður átti nákvæmlega við með, en hann hóf ræðu sína á því að spyrja: Ber okkur ekki að fagna þegar við förum að lögum? Og fór síðan að ræða um fyrrverandi hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur um hvernig hún hefði gert eitthvað. Þá erum við auðvitað komin nálægt því umræðuefni sem við höfum verið í þegar kemur að þessum málaflokki á kjörtímabilinu, að spyrja spurninga um það hver var vondur fyrst, hver byrjaði og hver fór eftir ferlinu og hver ekki.

Hér sé ég engan ágreining um að farið sé eftir lögformlegu ferli. Ég heyri bara að fólk vill tala um þetta vegna þess að því er annt um Ísland í öllum skilningi, hvort sem það er á forsendum náttúruverndar eða nýtingar sem ég átta mig á að fólk vill stundum af einskærri umhyggju fyrir landi og þjóð.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður hafi átt við þegar hann fór út í þá sálma þegar hann gagnrýnir á sama (Forseti hringir.) tíma að hér sé farið út í pólitík.