145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé ákveðið lykilatriði. Ég geri ekki lítið úr því að menn skoði þá faglegu vinnu sem liggur til grundvallar og vinnu verkefnisstjórnar, en svo er bara hitt að koma á svæðið og skoða og sjá hvað ákvörðunin felur í sér. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg. Ég held að það sé tækifæri fyrir þingið að vinna með þeim hætti, væri æskilegt að þeir sem véla um þessi mál, í þessu tilfelli atvinnuveganefnd og auðvitað ætti umhverfisnefnd þingsins, það segir sig sjálft, að hafa þessi mál til umfjöllunar á sínum vettvangi. Sárgrætilegt til þess að hugsa að menn taki ákvarðanir hugsanlega án þess að hafa kynnt sér nákvæmlega hvað um ræðir.

Tökum til dæmis Skrokköldu, í sjálfu sér er virkjunin ekki umfangsmikið mannvirki miðað við þær lýsingar sem liggja til grundvallar. Menn eru ekki að búa til nýtt lón, verið er að búa til göng úr Hálslóni sem þegar er til og við erum að tala um stöðvarhús sem mögulega getur legið afskaplega vel inni í landslagi eins og margar þær virkjanir sem við eigum nú þegar gera. Það er auðvitað bara umhverfið, hvað leiðir af þessu, hvaða mannvirki þarf að gera til að koma að þessu, hvaða mannvirki þarf að gera til að taka rafmagnið burt af þessum stað, sem skiptir máli? Í því samhengi má nefna svæði eins og þá umræðu sem er í gangi varðandi Þeistareyki og Bakka núna þar sem menn koma eftir á og þurfa að breyta formerkjum framkvæmdarinnar og eru miður sín yfir því að lögin gera ráð fyrir að þá þurfi að skoða þau upp á nýtt. Þetta er alltaf sama sagan. Það er alltaf komið eftir á og verið að breyta einhverju. Það er eins og ekki sé hægt að virða ferli. Því er von að menn hafi varann á sér þegar verið er að ræða þessi mál.