145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:36]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið en vil byrja á að þakka hæstv. umhverfisráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur fyrir að leggja fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hún leggur þessa tillögu fram óbreytta frá því að sérfræðihópur, hópur um rammaáætlun sem við höfum kallað svo í daglegu tali, lagði hana fram en samkvæmt henni yrði tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggðist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið yrði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Ég held að eftir þær löngu umræður sem urðu á vorþinginu um rammaáætlun sé tvennt í umræðunni hér í dag. Mér finnst ástæða til að þakka fyrir það að tónninn í þessari umræðu er allur annar en var áður og ég velti fyrir mér hvort við getum ekki lokið þessu máli á þeim stutta tíma sem eftir er. Ég held að ef þingið ætlar sér að fara að þeim lögum sem hafa verið sett um þessi verkefni sé tækifærið núna. Mér finnst mjög merkilegt að það er engin breytingartillaga við tillögu nefndarinnar þrátt fyrir að vissulega séu mörg álitaefni hér. Trúlega liti þetta öðruvísi út ef hver og einn þingmaður í þessum sal mundi leggja fram sína tillögu þannig að til að ná saman um málið held ég að við þurfum, eins og ég sagði í umræðum hér í vor, að treysta þeim sem eru sérfræðingarnir.

Hérna eru fjórir hópar af sérfræðingum sem hafa fjallað um mismunandi mál og, eins og ég segi, þótt ég sé ekki sammála öllu sem hérna kemur fram held ég að eina leiðin til að við náum einhverjum árangri og getum haldið áfram vegferðinni sé að þingið reyni að ljúka þessu máli. Það gerist ekki öðruvísi en að við opnum það ekki, eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Það er ekki hægt að rekja upp málið, taka út einhverja þætti og reyna að þrýsta því í gegn á þann hátt.

Ég held að samstaða verði að vera um að treysta sérfræðingunum, treysta þeim sem hafa verið valdir til að leiðbeina okkur til að taka réttar ákvarðanir. Með því náum við samstöðu á grundvelli verndar og orkunýtingar landsvæða.

Hér hefur verið talað um laxinn í Þjórsá sem við ræddum svo mikið í vor. Þetta er mest rannsakaði laxastofn í heimi. Í áætlunum er umhverfismatið framkvæmt og þar verður lagt frekara mat á þann stofn, seiðafleytingar og annað sem við höfum rætt oft áður.

Við erum að tala um að í Suðurkjördæmi eru 12 virkjunarkostir í orkunýtingarflokki af 17 í Suðurkjördæmi. Í biðflokknum eru 37, og 20 af þeim kostum eru á Suðurlandi og Reykjanesi. Í mínu kjördæmi eru miklir kostir. Ég geri mér enga hugmynd um að allir þessir kostir verði að lokum nýttir en hér er búið að raða þeim upp og ég tel þetta örugglega góða vinnu. Ég ætla að standa með ráðherranum í þessu máli, vona að það komi til atvinnuveganefndar, að við förum yfir það þar og getum klárað það fyrir þinglok.