145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, en samkvæmt forsetaúrskurði heyrir rammaáætlun undir umhverfisráðherra og samkvæmt þingsköpum heyra málefni verndar undir umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Því vil ég byrja ræðu mína á að taka undir þau sjónarmið að þetta þingmál eigi heima í umhverfis- og samgöngunefnd og ég lýsi vonbrigðum með það að hæstv. ráðherra skyldi rökstyðja þá vísan sína eða tillögu um vísun til atvinnuveganefndar með því að þar væri meiri þekking á rammaáætlun en í umhverfis- og samgöngunefnd, sem mér finnst raunar með stökustu ólíkindum að ráðherra umhverfismála skuli bera hér á borð fyrir Alþingi eftir að umhverfis- og samgöngunefnd hefur leitt hvert málið af öðru til lykta sem heyrir undir málaflokk hæstv. umhverfisráðherra. Í nefndinni eru bæði fyrrverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi iðnaðarráðherra sem báðar hafa starfað að þessum málum og þekkja afar vel. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni ekki andmæla mér í þeim efnum.

Mig langar til að koma inn á nokkur atriði. Hér hafa aðeins verið rædd þau mál sem lúta að þeim tíma sem við höfum í þinginu til þess að fjalla um þetta mál. Ég held að öllum megi vera ljóst að hann er afar knappur. Hér er stórt og mikið mál undir. Það er hins vegar eftir því tekið og rétt að geta þess að það er jákvætt að hæstv. ráðherra haldi sig við þann tímaramma sem settur hefur verið. Ég vil sérstaklega hrósa verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar fyrir að hafa haldið tímaáætlun sína og hæstv. ráðherra fyrir að hafa ávallt talað máli verkefnisstjórnarinnar og þeirrar vinnu sem þar hefur farið fram. Það hefur skipt miklu máli þegar að þeirri vinnu hefur verið sótt úr ýmsum áttum.

Mig langar til að nefna þá staðreynd að hér erum við að tala um gríðarlega mikilvægt verkefni. Við erum að tala um verkfæri, virðulegur forseti, gott verkfæri sem skilar greinilega mjög mikilvægri niðurstöðu. Hins vegar er verkfærið líka mannanna verk og við bjuggum það verkfæri til á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum og það er greinilegt af því sem er hér afurð 3. áfanga rammaáætlunar, að því verkfæri er fært að skila mjög öflugri sýn að því er varðar verndarflokkinn, vegna þess að við erum að tala um stór vatnasvið sem hafa verið til umfjöllunar og til umræðu meðal náttúruverndarfólks um margra áratuga skeið. Þar erum við bæði að tala um jökulárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót og Skaftá, við erum líka að tala um að lögð sé til vernd á svæði sem hefur verið kennt við Norðlingaölduveitu og síðar Kjalölduveitu í sértækri tillögu Landsvirkjunar og hefur stundum verið kennd við Þjórsá vestur og stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir vel. Öllum þessum þáttum ber sérstaklega að fagna, þ.e. þeim atriðum sem eru í verndarflokknum.

Síðan eru hér atriði sem eru umhugsunarverð, þ.e. hvernig rammaáætlun kallast á við aðra ákvörðunartökuferla og aðra þá umræðu sem er í gangi og hefur verið í gangi á vettvangi náttúruverndar undanfarin ár. Þá vil ég í fyrsta lagi nefna tillögurnar um að bæði Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun fari í nýtingarflokk á meðan við erum að tala um þann veruleika að við höfum nýverið fært varúðarreglu umhverfisréttarins inn í náttúruverndarlöggjöfina á Íslandi þar sem kemur fram með mjög skýrum hætti að náttúran skuli njóta vafans þegar vísindaleg óvissa er fyrir hendi. Þegar vísindaleg óvissa er fyrir hendi þá skuli náttúran njóta vafans. Þetta er lögfest í varúðarreglunni sem hefur verið tekin upp í íslenska löggjöf með samþykkt náttúruverndarlaga, nr. 60/2013. Þessi regla á sérstaklega vel við þegar kemur að rammaáætlun þar sem sérstaklega mikið er um vísindalega óvissu. Við erum með gríðarlega marga orkukosti undir, m.a. þá sem hér eru nefndir, en ekki síður þá orkukosti sem hafa snúist um jarðvarmavirkjanir þar sem mikil óvissa ríkir um áhrif þeirra og ósjálfbærni núverandi nýtingar þeirra þar sem mætti með réttu, með því að skjóta stoðum varúðarreglunnar og nýrra náttúruverndarlaga undir verkferla rammaáætlunar, rökstyðja það að mun fleiri virkjunarhugmyndir ættu heima annars staðar en í nýtingarflokki með þeim rökum.

Hitt er það hvernig rammaáætlun kallast á við önnur áform sem njóta núna vaxandi fylgis, eins og áformin eða hugmyndin um miðhálendisþjóðgarð, og þá jafnframt umfjöllun verkefnisstjórnar rammaáætlunar um virkjunarhugmyndir sem eiga heima innan miðhálendislínunnar. Það er umhugsunarefni og ég vil sérstaklega fagna því að sú umræða hefur verið tekin hér að hluta, en lýsi jafnframt vonbrigðum yfir því að bæði hæstv. ráðherra og stjórnarþingmenn hafa verið bangnir við það að ræða þennan veruleika, þ.e. hvernig þessi viðfangsefni öll sömul kallast á.

Einnig hefur verið fjallað um þá staðreynd hversu mikil ákvörðun felst í því að setja virkjunarkost í nýtingarflokk því að hún er býsna bindandi vegna þess að sveitarfélaginu, það þurfum við að hugsa um, er skylt að setja niðurstöður rammaáætlunar á skipulag. Þannig tekur rammaáætlunin yfir hið hefðbundna skipulagsvald sveitarfélaganna. Sveitarfélag sem ætlar síðan með virkjunarframkvæmdina í gegnum umhverfismat framkvæmda er samt með svæðið á skipulagi sem orkunýtingarsvæði. Ákvörðun sem við tökum hér er nánast stjórnsýsluákvörðun vegna þess að hún varðar vald sveitarfélagsins til þess að taka ákvarðanir um landsvæði. Þetta er umhugsunarefni.

Einnig vil ég segja, og það er bara eitthvað fyrir okkur til að skoða því að almennt vinnur tíminn með verndarsjónarmiðum, að þó að lög um rammaáætlun séu ekki gömul endurspegla þau samt þá hugsun að bæði vatnsföll og jarðhitasvæði séu í grunninn svæði til að nýta og sönnunarbyrðin sé frekar þeirra sem vilja vernda en þeirra sem vilja nýta. Þetta ætti að mínu mati að snúa þveröfugt.

Ég vil líka nefna það — af því að ég er ekki að leggja til að lögin um rammaáætlun verði opnuð — sem ég tel vera augljósa reynslu, bæði þeirrar sem hér stendur og ekki síður þess ráðherra sem mælir núna fyrir þessari tillögu, að það verður að einfalda friðlýsingarferlið á grundvelli rammaáætlunar. Það gengur ekki að friðlýsingarferli þeirra kosta sem falla í verndarflokk sé með svo seigfljótandi hætti sem raun ber vitni, að það taki þennan ógurlega tíma fyrir hvern og einn kost. Það þarf að vera þannig að um leið og þingið hefur ákveðið svæði í verndarflokk þá séu svæðin þar með vernduð fyrir orkunýtingu. Síðan væri hugsanlegt að fara í hefðbundnar friðlýsingarleiðir út frá öðrum verndarþáttum og annars konar verndargildi viðkomandi svæða, en þetta er eitthvað sem við verðum að laga í fyllingu tímans.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki langur ræðutími sem maður hefur til að fjalla um svo stórt og viðamikið mál, en ég hef reynt að drepa á nokkrum þeim þáttum sem ég tel standa upp úr í þessari umfjöllun og vonast auðvitað til þess að málið fari til þeirrar nefndar sem eðlilegast er samkvæmt þingsköpum að það fari til, þ.e. umhverfis- og samgöngunefndar.