145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem þarna á sér stað er auðvitað mjög ódrengileg hegðun hjá hv. þingmönnum sem einu sinni voru meginuppistaðan í hinni svokölluðu hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar en fást nú aðallega við að hagræða sannleikanum með ítrekuðum tilraunum til að afvegaleiða umræðu til að koma á framfæri upplýsingum og málatilbúnaði sem er búið, einmitt af óháðum aðilum, að hrekja ítrekað, af rannsóknarblaðamönnum sem farið hafa yfir þær ásakanir sem þarna koma fram. En það skal haldið áfram að „láta þá“ neita þessu. Það er taktíkin sem er á ferðinni. Þessi málatilbúnaður, að kalla hann síðan einkavæðingu bankanna hina síðari, er aum tilraun til að láta líta svo út að þær ráðstafanir sem gripið var til hér í kjölfar hruns séu á einhvern hátt sambærilegar þeim dómadagssubbuskap sem átti sér stað í ríkisstjórn (Forseti hringir.) Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þegar bankarnir voru einkavæddir. Það gerir þetta enn þá lágkúrulegra.