145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjármunir sem fóru í skuldaniðurfellinguna.

[16:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það vakti athygli þegar þingflokkur Bjartrar framtíðar greiddi atkvæði gegn búvörusamningnum vegna þess að það er ekkert svo oft sem þingmenn eru á rauða takkanum, greiða atkvæði gegn málum. Flest mál fara í gegn með samþykki minni hlutans og í mjög mörgum tilfellum situr minni hlutinn hjá. Þegar þingmenn eru mjög ósáttir við einhver mál og vilja alls ekki að þau fari í gegn eru þeir á rauða takkanum. Það gerði þingflokkur Bjartrar framtíðar líka í atkvæðagreiðslu um fjárlög fyrir árið 2014. Atkvæðagreiðslan fór fram rétt fyrir jól 2013 þegar fjárlagaliðurinn skuldaniðurfelling kom til afgreiðslu, 20 milljarðar. Þá var Björt framtíð eini þingflokkurinn á rauða takkanum. Við höfðum talað gegn þeirri ráðstöfun í kosningabaráttunni, kannski ekki fengið endilega atkvæði út á það, og við tókum skýra afstöðu gegn þeirri fjárveitingu í fjárlagaatkvæðagreiðslunni.

Í okkar huga var þetta mikið bruðl. 80 milljörðum var ómarkvisst dreift til heimila og til fjölda fólks sem þurfti í sjálfu sér ekkert á þessari aðstoð að halda, niðurgreiðslu af hálfu ríkisins.

Við höfum rætt bæði í umræðu um fjárlög undanfarinna ára og fjármálaáætlunina gríðarlega þörf á uppbyggingu innviða, vegakerfið, þ.e. samgöngurnar, við erum að horfa á menntakerfið, við setjum að meðaltali minni pening í menntakerfið en nágrannaþjóðirnar ef við skoðum þetta sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Vissulega hefur verið bætt aðeins í heilbrigðismálin en eftir hrun var gríðarlega mikil þörf á uppbyggingu innviða og hún er enn til staðar.

Getur hæstv. fjármálaráðherra farið inn í kosningabaráttuna, (Forseti hringir.) staðið keikur og sagt að þessum 80 milljörðum hafi verið vel varið?