145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirlýsingu og afstöðu. Ég mun að sama skapi styðja þetta mál á þeirri forsendu sem hér greinir og við höfum rætt.

Ég óttast, ekki síður en hv. þingmaður, að fortíðin endurtaki sig. Hún er sífellt að endurtaka sig. Ég óttast að aðhald með lögreglu sé ekki sem skyldi, óttast að það þurfi að stórefla. Umræða og rannsóknir um hvernig best sé að standa að málum hefur verið mjög uppi í þjóðþingum í Evrópu og hjá Evrópuráðinu að undanförnu og menn hafa skoðað ýmsar leiðir í þeim efnum.

Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur þetta mál ítrekað komið upp. Píratar hafa flutt um þetta frumvarp. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur sett fram sín sjónarmið. Þetta þurfum við allt að taka til skoðunar því að það er mjög mikilvægt að okkur takist að búa til trúverðug ferli. Það nægir ekki að þingið eitt komi að þessu. Við þurfum á sérfræðingum að halda. Við þurfum að draga lærdóm af því sem er að gerast í kringum okkur, en til þess þarf að sjálfsögðu að rannsaka málin vel.