145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í þetta. Sömuleiðis öllum þeim sem að málinu hafa komið.

Það sem mig langar aðallega til að gera hér er að leggja áherslu á það við okkur í þinginu að við tökum þetta alvarlega, þ.e. þessa sóknaráætlun sem við þurfum núna að ráðast í. Menn þurfa að ráðast í aðgerðir á breiðum grunni. Við þurfum að taka þetta alvarlega. Ég hef áhyggjur af að við gerum það ekki nægjanlega. Það sem ég á við er að við skrifum stundum falleg orð á blað, setjum okkur falleg markmið en minna er um aðgerðir. Það eru vonbrigði hversu illa okkur hefur gengið að fylgja eftir orkuskiptum í samgöngum. Við erum langt á eftir t.d. Norðmönnum hvað það varðar. Ég hef áður nefnt og lagt fram þingmál þar um að ég teldi að við ættum í eitt skipti fyrir öll að ná saman um það þverpólitískt að við gerðum græn ökutæki gjalda- og skattlaus þangað til við höfum náð ákveðnu markmiði í hlutfalli slíkra ökutækja af bílaflotanum, t.d. 10%, 15%, þannig að við séum komin yfir krítískt mark og menn ýttu dálítið vel undir að þetta gerðist. Í staðinn höfum við verið að velta undanþágum frá virðisaukaskatti á rafmagnsbílum frá ári til árs og það gefur ekki nægjanlegan fyrirsjáanleika fyrir þennan markað.

Það eru fleiri svona atriði sem ég gæti nefnt. Ég held að við þurfum ekki endilega að vera einhvers staðar í pólitískum skotgröfum heldur eigum við að geta náð saman þvert á flokka um það að setja okkur svona markmið og ráðast í að grípa til þeirra aðgerða sem þörf er á. Þarna er eitt verkefni sem hægt er að nefna. Þá skiptir líka máli að mínu mati að við göngum á undan með góðu fordæmi. Ég hefði t.d. viljað sjá að nú þegar menn hafa verið að endurnýja t.d. bílaflota ráðherranna hefði verið endurnýjað í grænum ökutækjum, svo dæmi sé tekið. Fleira mætti nefna í því.

Ég kem hingað upp til að ítreka afstöðu mína og okkar í Samfylkingunni og lýsa því yfir að við erum tilbúin í þessa vinnu þverpólitískt að reyna að grípa til einhverra róttækra aðgerða svo við náum að uppfylla markmið okkar og gera jafnvel enn betur. Við höfum tæki og tól til þess.

Þá langar mig líka að nefna að við sjáum dæmi um hversu mikil áhrif ákvörðun um svona markmið getur haft t.d. í sjávarútvegi. Í sjávarútvegi höfum við séð gríðarlega góðan árangur við minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Ef horft er á heildartölur losunar fyrir Ísland sést að tekist hefur býsna vel hjá sjávarútveginum að draga úr losun hjá sér. Við þurfum að fara að horfa á fleiri atvinnuvegi með sambærilegum hætti. Mér finnst til fyrirmyndar hvernig Reykjavíkurborg hefur gert þetta. Reykjavíkurborg hefur gert samkomulag við á annað hundrað fyrirtækja í borginni um að fara sameiginlega í slíkt átak. Þetta markmið og átak Reykjavíkurborgar í minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda hefur vakið heimsathygli. Þar eru opinberi og einkageirinn að taka höndum saman. Ég mundi vilja sjá að ríkið gerði slíkt hið sama og gerði þetta dálítið grand og sýndi að við meinum það sem við segjum í þessari samþykkt allri saman.

Síðan er mér annað líka hugleikið því að ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd. Við erum núna að fjalla um samgönguáætlun. Það er aldrei sérstaklega horft á nýja samgönguáætlun eða lagt mat á hana t.d. út frá markmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda og samdrátt í þeim. Við þyrftum að búa okkur til mælikvarða og gleraugu sem við horfum í gegnum á þau verkfæri sem við höfum, eins og t.d. samgönguáætlun, til að reyna að meta hvort þar séu einhver tækifæri sem við gætum nýtt okkur til þess að draga úr losun.

Þetta ætla ég að skilja eftir í lok þessarar umræðu. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu og tel það hið allra besta, en tel engu að síður að því sé ábótavant að við fylgjum betur eftir aðgerðum í þessum efnum.