145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[16:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál sem er mjög ánægjulegt að við séum að klára í dag eftir stutta og snarpa vinnu hæstv. utanríkismálanefndar. Ég verð hins vegar að segja að það er dapurt að það sé 20. september árið 2016 sem við erum að samþykkja þetta, en betra er seint en aldrei. Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir flutti fyrir nokkrum dögum um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þessi góði og ánægjulegi samningur var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007 eftir að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafði samþykkt hann.

Í upphafi þessa þings flutti ég ásamt tólf öðrum þingmönnum sams konar tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég flutti það mál og það fór til velferðarnefndar sem kallaði eftir umsögnum og kallaði til sín gesti, ræddi það mál eftir að húsnæðismálin voru búin og skilaði því með tillögu, niðurstöðu sem er prentuð við nefndarálitið sem heitir Skýrsla velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og getið er um á vef Alþingis.

Við fyrri umræðu þessa máls gat ég, í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra, um þá tillögu sem þarna hafði legið inni sem væri hægt að taka strax og samþykkja. Í umræðu fæddist sú hugmynd að þingsályktunartillagan færi til utanríkismálanefndar í stað allsherjar- og menntamálanefndar, eins og hæstv. ráðherra lagði til. Við frekari skoðun á þingsköpum kom í ljós að staðfesting á alþjóðasamningum, eins og hér er um að ræða, er verkefni utanríkismálanefndar. Ég verð að segja ráðherranum til hróss að hún gerði það að tillögu sinni. Málið gekk til utanríkismálanefndar þar sem það var tekið fyrir á einum fundi. Stuðst var við þau gögn og umsagnir sem velferðarnefnd hafði unnið vegna umræddar þingsályktunartillögu sem ég og tólf aðrir þingmenn fluttu við upphaf þessa þings og er það vel.

Jafnframt kemur fram að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, framsögumaður málsins, og nefndin öll, undir stjórn hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur — ég tek það fram að nefndin öll vann þetta mjög hratt og vel sem gerir að verkum að við erum að ræða þetta við síðari umræðu og væntanlega verður þetta samþykkt síðar í dag. Það er nauðsynlegt vegna þess að á morgun, í síðasta lagi á fimmtudag, hyggst hæstv. utanríkisráðherra skila inn fullgildingarskjölum fyrir Íslands hönd á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna segi ég: Það er ánægjulegt hvað hæstv. utanríkismálanefnd hefur unnið þetta hratt. Framsögumaður málsins, Össur Skarphéðinsson, flutti nefndarálitið hér í gær og fjölmargir lýsa yfir stuðningi við málið, enda held ég að þingheimur allur muni standa að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu, vonum seinna.

Þegar ég flutti þá tillögu sem ég hef gert að umtalsefni stóð þar inni, ef ég man rétt, að 156 ríki væru aðilar að þessum samningi auk Evrópusambandsins sem hefur staðfest hann líka, 157 ríki og Evrópusambandið. Í dag hef ég fengið upplýsingar um að 10 ríki hafi bæst við á þessu ári, ríki sem heita Antigúa og Bermúda staðfestu samninginn 7. janúar 2016, Srí Lanka staðfesti hann 8. febrúar, Brunei 11. apríl, Comoros 16. júní, Finnland 11. maí og Holland 14. júní síðastliðinn. Ríkin eru orðin 166 en aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, eftir því sem ég best veit, eru um 190. Það er þess vegna sem ég kem hér í ræðustól til að ræða þetta við síðari umræðu, þetta mikilvæga og þarfa mál sem við ætlum að samþykkja núna þannig að ráðherra geti afhent fullgildingarskjölin á fullgildingarfundi sem er á morgun eða fimmtudaginn. Það er ánægjulegt og gott.

Umræða hefur spunnist um hinn valkvæða viðauka sem kallaður er. Ég get ekki séð það neins staðar í tillögunni að sérstaklega sé fjallað um hann, hann er hluti af samningnum að mínu mati. Ég segi hiklaust: Af því að við erum svona sein að gera þetta eigum við að skoða það mjög alvarlega að fullgilda valkvæða viðaukann líka. Ég spyr til vara, vegna þess að ég veit að um það hefur verið rætt, hvort við gætum hugsanlega haft þar inni að hinn valkvæði viðauki verði staðfestur svo fljótt sem auðið er. Mér berst til eyrna að ef við samþykktum þetta gæti það frestað því sem á að gerast á morgun eða á fimmtudag. Ég trúi því og treysti að hæstv. utanríkismálanefnd, með hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í broddi fylkingar og framsögumann málsins hv. þm. Össur Skarphéðinsson, leiti leiða til að við klárum þetta algjörlega hér í dag.

Við skuldum þeim sem þetta fjallar um, þ.e. okkar minnstu bræðrum og systrum, að staðfesta samninginn, fullgilda hann og við eigum að stíga skrefið til fulls. Ég fór yfir þetta í upphafi ræðu minnar. Ég nefndi hæstv. utanríkisráðherra Lilju Alfreðsdóttur og þá farsælu niðurstöðu sem varð; mjög fljót og góð utanríkismálanefndar sem gerir það að verkum að við erum að ræða þetta hér og nú.

Virðulegi forseti. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja jafna stöðu allra einstaklinga óháð skerðingum. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðu fólki sömu mannréttindi og tækifæri og öðrum. Í samningnum felst viðurkenning alþjóðasamfélagsins á því að fatlað fólk hafi í gegnum tíðina ekki notið sama réttar og tækifæra til samfélagsþátttöku og aðrir. Samningurinn byggist á félagslegri sýn og fötlun samanber 2. mgr. 1. gr. samningsins sem segir að til fatlaðs fólks teljist meðal annars þeir sem eru með langvarandi, líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Þetta eru fögur fyrirheit. Þetta er fallega orðað í samningnum og í greinargerð, en ég er að lesa hér kafla upp úr greinargerð að tillögu sem ég ásamt tólf öðrum þingmönnum fjallaði um. Um þetta er líka fjallað í tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Öll erum við sammála um þetta mál.

Vegna mikilvægi málsins ætla ég ekki að orðlengja meira um þennan samning. Ég hygg að við séum öll sammála um samþykkt hans. Við ættum í raun að biðjast afsökunar á að vera ekki búin að gera það fyrr eins og með svo margt annað. Það er yfirsterkara því að fara í frekari umræðu um þetta mál eða lengja umræðuna.

Það sem mér finnst mikilvægast, virðulegi forseti, er að við leitum að lausn til að heimila fullgildingu á samningnum öllum og valkvæða viðaukanum og reynum að sýna það á Alþingi að við getum unnið saman að sátt um mál og fundið lausnir. Ef tímapressan er svona mikil eins og ég gerði að umtalsefni áðan, ef það eru einhver vandkvæði með valkvæða viðaukann vegna þýðingar eða annað, gæti það gerst sem ég get ekki hugsað mér að gerist, þ.e. að fresta þyrfti því að afhenda fullgildingarskjölin. Ég get ég ekki hugsað mér það. Ég trúi ekki öðru en við á Alþingi getum sest niður og fundið lausn á þessu máli hvað þetta varðar. Svo ég segi: Í mínum huga var þetta allt saman undir í þeirri tillögu sem flutt var í haust. Ég get ekki séð neins staðar fjallað um að viðaukinn sé undanskilinn.

Virðulegi forseti. Ég ætla að standa við það sem ég sagði áðan og ljúka máli mínu um þetta mikilvæga og góða mál sem ég vonast til að við samþykkjum sem allra fyrst. Þess vegna ætla ég ekki að lengja umræðuna meira en ég hef gert með rétti mínum til að ræða þetta við síðari umr.