145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að utanríkismálanefnd tókst að afgreiða málið með mjög snörpum vinnubrögðum var tvíþætt: Í fyrsta lagi sú tillaga sem hv. þingmaður var búinn að leggja hér fram ásamt mér og ýmsum öðrum þingmönnum, sem var hin sama og hæstv. utanríkisráðherra lagði síðar fram. Það gerði það að verkum að búið var að vinna alla grunnvinnuna. Niðurstöður rannsóknarvinnu fagnefndarinnar lágu fyrir þegar málið kom til utanríkismálanefndar vegna þess að utanríkisráðherra lagði fram tillögu sem var stafrétt hin sama og tillaga hv. þingmanns, þannig að honum ber að þakka.

Í öðru lagi ber að þakka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sýndi mikinn skilning og sveigjanleika við það að beita þessum vinnubrögðum og nýta vinnu annarrar nefndar. Þökk sé henni.

Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti líka tímamótaræðu áðan. Hún lýsti því yfir að hún styddi það að valkvæða bókunin yrði tekin upp en taldi á því tæknilega annmarka. Hv. þm. Kristján L. Möller er með meiri reynsluboltum sem sitja á þinginu. Ég spyr hann þess vegna: Telur hann ekki að hægt sé að gera hvort tveggja; að taka tillit til ákveðinna tæknilegra annmarka, vegna þess að fullgildingarfundurinn er ekki á morgun heldur hinn, með því að við klárum fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðra en staðfestum jafnframt og samþykkjum breytingartillögu hv. þm. Páls V. Björnssonar með þeirri breytingu, og hins vegar að sú bókun og fullgilding taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017? Þá erum við búin að klára samninginn um réttindi fatlaðra og búin að gefa fyrirmæli um það inn í framtíðina að unnið verði með hraði þannig að t.d. 1. janúar 2017 sé (Forseti hringir.) hægt að ganga frá hinu, eða, eins og kom fram frá öðrum hv. þingmanni áðan, eins fljótt og auðið verði þannig að við klárum þetta í dag.