145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

kjararáð.

871. mál
[19:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á hæstv. ráðherra flytja þetta frumvarp, stóra og viðamikla frumvarp um kjararáð, sem mælt er fyrir nokkrum dögum áður en þing á að fara heim illu heilli. Það sem mig langar að spyrja út í í fyrra andsvari mínu er að mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að m.a. aðstoðarmenn ráðherra ættu að taka mið af launum skrifstofustjóra í ráðuneytum. Samkvæmt úrskurði kjararáðs frá 1. júlí sl. eru laun skrifstofustjóra sem heyra undir ráðuneytisstjóra tæp 1 milljón á mánuði. Auk þess hafa skrifstofustjórar 33 einingar. Ef ég skil þetta rétt eru greiddar 9.572 kr. fyrir hverja einingu, það þýðir rúmar 315.000 kr., þannig að skrifstofustjórar eru komnir með rúma 1,3 milljónir í laun. Ég held að ég muni það rétt að skrifstofustjórar eru þar með komnir upp fyrir laun ráðherra sem jafnframt eru alþingismenn. Ef skrifstofustjóralaun eiga að vera viðmiðunarlaun fyrir aðstoðarmenn ráðherra get ég ekki séð annað en að aðstoðarmenn ráðherra verði hærra launaðir en ráðherrann sjálfur. Erum við virkilega að fara þá leið, virðulegi forseti?

Þetta er fyrri spurning mín í fyrra andsvari. Ég ætla ekki að taka hina fyrr en á eftir.