145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[21:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir mjög athyglisverða ræðu. Það er engu líkara en að stjórnarflokkarnir vilji frekar dansa með stjórnarskrána á jaðrinum og taka sénsinn á að brjóta hana en að setja inn í stjórnarskrána ákvæði sem heimilar framsal eins og telst í því máli sem hér er á ferðinni, án þess að ég hafi sett mig inn í fínni blæbrigði þess. Ég man eftir máli sem kom upp á síðasta kjörtímabili sem varðaði eldvarnaeftirlit á flugvöllum, sem er sambærilegt og þótti mjög á gráu svæði þá.

Af því að ég sit í stjórnarskrárnefnd ásamt hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur langar mig til þess að reyna að komast að því hvað gerðist eiginlega innan nefndarinnar sem varð til þess að vinnu við framsalsákvæði stjórnarskrárinnar var hætt. Eftir því sem ég man best var einfaldlega eins og það kæmu einhvers konar ordrur innan úr djúpum Framsóknarflokksins um að allt tal um að búa til framsalsheimildarákvæði í stjórnarskrána fæli í sér í rauninni uppgjöf gagnvart Evrópusambandsspurningunni og menn mundu einhvern veginn sjálfkrafa renna þangað inn. Ekkert er fjarri sanni. Þessi ótti er algerlega ástæðulaus. (Gripið fram í: Nei.) Engar haldbærar röksemdir voru fluttar fyrir því hvers vegna menn vildu ekki ganga þessa leið.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hún geti rifjað upp einhverjar slíkar röksemdir fyrir því að menn fóru þessa leið. Hvernig stendur líka á því, má velta fyrir sér, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli verða samferða í þeim leiðangri sem býður t.d. upp á Múlakaffismatseðil af lögfræðingum í komandi kosningum?