145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta með fílinn og bitana og hvar eigi að byrja að bíta og byrja að vinna, þetta er stórt og umfangsmikið. Það verður, held ég, ekki endurtekið nógu oft hversu mikilvægt þetta er og hve miklu máli skiptir að vandað sé til verka. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist einnig, í andsvari áðan, á hinar ófyrirséðu afleiðingar. Ég held að þar þurfum við að vera mjög vel vakandi því að í almannatryggingakerfinu er gert ráð fyrir því að fólk geti farið á hálfan lífeyri frá lífeyrissjóðunum og hálfan lífeyri úr almannatryggingakerfinu, og svo blandast inn í það ólíkur lífeyristökualdur, þannig að við erum komin með rosalega margar ólíkar breytur sem þarf að reyna að hafa stjórn á til þess hreinlega að vita hvaða áhrif þetta kemur allt til með að hafa á lifibrauð fólks. Svo það er ekkert smáræði sem er undir.

Hv. þingmaður minntist hér áðan á milliþinganefnd. Nú verð ég að játa að ég hef ekki af þeim neina reynslu og hv. þingmaður nefndi milliþinganefnd fyrir almannatryggingafrumvarpið og einnig fyrir þetta lífeyrisfrumvarp þar sem það liggur fyrir að þetta fer inn í tvær ólíkar þingnefndir og réttilega er þriðja málið hjá þriðju þingnefndinni. Þarf ekki að vera einhver sem síðan rýnir þetta heildstætt? Þarf ekki að vera (Forseti hringir.) einhver samgangur þarna á milli nefnda til að við náum utan um þessar gígantísku breytingar sem við erum þó flest að einhverju marki sammála um að séu mikilvægar?