145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að tala um „realismann“ í kringum það hvernig meðferðin á þessu máli getur orðið í þinginu, og reyndar aðeins um það að staðan hér er orðin heldur dæmigerð. Menn búast væntanlega við því að klára þetta mál, það er væntanlega þess vegna sem það er lagt hér fram, án þess að fyrir liggi nein forgangsröðun á þeim málum sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að ná í gegn á þessu þingi og þar af leiðandi á þessu kjörtímabili. Það gerir öðrum erfiðara fyrir með að forgangsraða því hvaða mál þau eiga að kynna sér. Ég líki þessu oft við það að maður viti ekki fyrir hvaða próf maður á að læra og ekki hvenær prófið verður haldið. Það eru óþolandi aðstæður þegar um er að ræða hvert risastóra málið á fætur öðru. Það er óþolandi staða. Það verður að breytast í framtíðinni, ekki vegna þess að það er óþægilegt eins og það er, heldur vegna þess að það kemur niður á möguleikum þingmanna til að kynna sér málin almennilega, sér í lagi ungum þingmönnum eins og þeim sem hér stendur sem hefur ekki verið lengi á þingi og hefur þar af leiðandi ekki haft mikinn tíma til þess að kynna sér þessa risastóru málaflokka, eins og þessi er vissulega. Mér þykir mikilvægt að hafa það í huga þegar við afgreiðum svona stór mál — eða við virðumst ætla að afgreiða svona stór mál fyrir þinglok. Ég ætla að láta það duga um það mál að svo stöddu við 1. umr. og halda áfram með þá ágætu umræðu sem var milli hv. 4. þingmanna Reykjav. n. og Norðaust., þeim sérlega háttvirtu kjördæmum.

Það er mikil vinna á bak við þetta frumvarp eins og komið hefur fram, sem sést þegar maður les frumvarpið. Það er mikil baksaga og greinilega mikil hugsun um hvernig glíma eigi við þau vandamál sem frumvarpinu er ætlað að leysa, þ.e. að jafna muninn á almenna markaðnum og opinbera markaðnum að þessu leyti, og sömuleiðis að laga þann vanda sem lengi hefur verið yfirþyrmandi, að fyrirsjáanlegt sé að á ríkið skelli mikil skuldbinding sem ráða þurfi við á skömmum tíma.

Í frumvarpinu er nefnd sú hæsta tala sem ég hef séð í frumvarpi hingað til, alla vega í frumvarpi af þessu tagi. Um er að ræða 100 milljarða sem er óljóst er, alla vega eftir því sem ég fæ best séð, á nákvæmlega hversu löngum tíma verða reiddir af hendi eða hvernig það virkar allt saman. Ég á eftir að fá það á hreint og verður það væntanlega útkljáð í nefnd, kannski fjárlaganefnd. Ég mundi venjulega ætlast til þess, þótt ég ætli ekki að krefjast þess formlega hér og nú, að það fengi líka umræðu í velferðarnefnd vegna þess að þetta eru skyld mál og snertir réttindi fólks, að því er virðist af ræðum annarra þingmanna sem hér hafa talað. Þá er mikilvægt að það sé á hreinu í velferðarnefnd, ekki bara vegna málsins heldur líka vegna starfs velferðarnefndar og hlutverks hennar, á hvaða hátt það er þannig að hægt sé að meta slík áhrif í samhengi við önnur mál, svo sem almannatryggingamálið sem þar er til meðferðar og vissulega málaflokkinn í heild sinni.

Það að mikil vinna sé á bak við þetta frumvarp og að mikið hafi verið lagt í það þýðir að það tekur sinn tíma að komast inn í forsendurnar fyrir því, þá er alveg sama hversu mikil sátt er um það vegna þess að ef einn eða tveir hópar eru ósáttir þarf að skilja hvers vegna það er og er mikilvægt fyrir hið háa Alþingi að hér sé góð meðvitund um hvers vegna hlutirnir eru gerðir eins og raun ber vitni. Hér erum við í umhverfi eins og sagan sýnir þar sem ekki er alveg hægt að treysta því að allt sé í lagi með mál sem þó er sagt að sátt ríki um.

Það skiptir því verulegu máli að þingið fái nægt svigrúm til þess að fara yfir þetta mál. Ég fullyrði að það svigrúm er ekki til staðar miðað við gildandi starfsáætlun. Svo mikið er víst. Jafnvel þótt við litum til kosninga mundi starfsáætlun breytast. Ef starfsáætlun breytist þannig að við ljúkum þingi nær kosningum kemur það líka niður á starfinu vegna þess að slík ráðstöfun á tíma hins háa Alþingis mundi valda því að hér verður erfiðara að eiga við önnur mál, fyrir utan það að miðað við reynsluna eru allar líkur á því að hingað komi inn enn fleiri mál sem geta vel varðað stjórnarskrá eða eitthvað því um líkt og annað sem við þurfum einnig tíma til að ræða almennilega en munum ekki hafa tíma fyrir.

Mig langaði rétt aðeins að nefna eitt atriði, það er reyndar dágóður tími síðan það var nefnt hér síðast af hv. þingmanni. Það er annar þáttur lífeyrisréttindanna sem okkur hefur láðst að kanna til hlítar; það er ekki bara að jafna muninn á rétti fólks á almenna markaðnum og opinbera markaðnum, heldur líka kynjamunurinn. Þótt Ísland sé meðal fremstu þjóða í heiminum í dag hvað varðar kynjajafnrétti, sem við hljótum að vera stolt af þótt margt sé enn eftir, er það hluti af þróun þar sem við höfum mjög nýlega náð glæsilegum árangri, eða árangri sem maður gæti sagt vera eitthvað nálægt því að vera glæsilegur. Þar sem við erum að ræða málefni sem varðar heilu áratugina, í raun heilan starfsaldur, mun fólk núna og í náinni framtíð nýta sér ýmis lífeyrisréttindi eða almannatryggingakerfið. Það var á vinnumarkaðnum — eða ekki — á tímum þar sem ekki var gert ráð fyrir því að konur og karlar og önnur kyn ættu að vera jöfn samkvæmt lögum og réttindum. Við þurfum því að hugsa um það sjálfstætt. Þetta mál er ekki hugsað til þess að laga það vandamál, en það er mjög mikilvægt ef við lítum til þess því að þó að það sé mikilvægt markmið að jafna muninn á almenna og opinbera markaðnum megum við ekki gleyma þessu markmiði heldur. Þetta er jú málaflokkur sem er víðfrægur meðal almennings fyrir það hvað hann fær litla athygli á Alþingi, og því er enn verra að það sé svo stutt í að þessu þingi ljúki. Ég ímyndaði mér að ég hefði meiri tíma til þess að tala um þetta, virðulegi forseti, en mér finnst rétt að nefna þetta vegna þess að það kemur málinu við, ekki frumvarpinu sem slíku, en málaflokknum og það er mikilvægt að hafa þetta á hreinu.

Komið hefur fram ágætishugmynd um milliþinganefnd, sem ég veit reyndar ekki hvernig er útfærð, enda hef ég aldrei verið á þingi milli þinga. En ef það er til þess fallið að málið fái betri yfirferð þingsins hygg ég að það sé mjög góð lausn, ef það er þá lausn. Ég mundi styðja þá hugmynd með þeim fyrirvara að ég hef einungis heyrt um hana í umræðum í dag og veit þess vegna ekki nákvæmlega hvernig hún yrði útfærð.

Þá langar mig að gera að umræðuefni áhugaverða hugmynd sem ég heyrði frá hv. þingmanni Norðausturkjördæmis, það er sú hugmynd að alltaf sé greitt iðgjald frá ríkissjóði ef þörf er á, þannig að lífeyrisréttindi byggist upp fyrir alla, að allir hafi lífeyrisréttindi þegar að því kemur. Án þess að ég vilji eigna einhverjum öðrum hugmyndina minnir þetta mig pínulítið á það sem stundum er kallað borgaralaun, kannski mætti kalla þetta borgaralífeyrisréttindi eða eitthvað því um líkt. Ég hendi því bara fram til þess að hafa einhvern merkimiða fyrir þessa ágætu hugmynd. En ég hef nokkrar áhyggjur af þessu og öðru vandamáli sem koma mun upp eða sem hefur komið upp, sem er það að sumt fólk fer inn á vinnumarkaðinn afskaplega seint miðað við það sem mögulegt er. Það eru til Íslendingar í dag sem fóru seint að borga í lífeyrissjóð og afla sér lífeyrisréttinda. Fólk flutti á milli landa, Íslendingar til útlanda og útlendingar til Íslands. Þá er hætt við að það verði til ákveðin skekkja þarna sem menn dreymdi ekki um að yrði til staðar þegar þeir settu á fót þau lífeyriskerfi sem við höfum í dag, og reiknuðu með fullri virkni eftir 15, 25 ár eitthvað svoleiðis, að sögn þeirra þingmanna sem hér hafa talað í dag. Hvernig sem á það er litið er það vandamál sem ungu fólki eins og mér finnst eins og hafi átt að vera búið að leysa fyrir löngu í æsku okkar og á uppeldisárunum. Það er vissulega barnaleg hugsun, en hún er eðlislæg, held ég. Ég held að sé okkur eðlislægt að ímynda okkur að það sé einhvern veginn búið að leysa þann augljósa vanda að þegar fólk verður gamalt hætti það fyrr eða síðar að geta unnið að einhverju marki. Þá ímyndar maður sér einhvern veginn í nútímasamfélagi þar sem við erum með snjallsíma og guð má vita hvað, að þetta sé vandamál sem hafi fyrir löngu verið leyst. Svo er auðvitað ekki.

Við erum hérna í miðjum klíðum að leysa þessi vandamál og þá koma auðvitað upp ný. Það eina góða er að þetta gerist það hægt að hægt er að sjá með þó nokkurri vissu inn í framtíðina, nema auðvitað þegar forsendurnar bresta eins og t.d. gerðist 2008, og sem getur gerst við mjög stórar þjóðfélagsbreytingar, svo sem þegar aldurssamsetning breytist hraðar en menn bjuggust við eða einhverjar aðrar samsetningar. Fyrir því þurfum við alltaf að vera vakandi þegar kemur að þessum málaflokki.

Ég hygg þó að sú hugmynd sem reifuð var hér áðan, sem ég ætla að leyfa mér að kalla borgaralífeyri, gæti vissulega komið til móts við það. Ég tek dæmi um einstaklinga sem alast hér upp, eða 16–18 ára einstaklinga sem fara í skóla. Þeir lenda kannski á örorku, eða hvað svo sem það er sem gerir það að verkum að fólk fer ekki út á vinnumarkaðinn, en eftir stendur fólk sem flytur kannski hingað og er komið á þann aldur að það nær aldrei að byggja upp nein teljandi réttindi. Það er annað vandamál sem við þurfum að huga að. Það eina sem mér dettur í hug í fljótu bragði er að þetta fólk þurfi að byggja upp réttindi sín hraðar, sem er ekki augljóst hvernig það á að gera í ljósi þess að langtímafjárfestingar almennt krefjast langs tíma eðli málsins samkvæmt. Þegar maður fer í langtímafjárfestingar vinnur maður öðruvísi með fjármagnið en ef um skammtímafjárfestingar er að ræða og sér í lagi ef þörf er á því að ávaxta peninginn hratt. Á móti kemur að þegar maður er einungis á vinnumarkaði í 10, 20 ár þarf einungis að gera ráð fyrir verðbólgu í 10, 20 ár, þannig að það kemur að vísu á móti, en þetta er eitthvað sem þyrfti klárlega að ræða til hlítar.

Á lokamínútum ætla ég að varpa fram hugmynd sem ég held að verði nauðsynlegt að innleiða einhvern tímann í náinni framtíð. Hún er að við þurfum aðeins að hugsa um þær samfélagsaðstæður að fólk almennt sé ekki á vinnumarkaði stóran hluta ævinnar. Það geti gerst út af tækniframförum. Að vísu verð ég gera fyrirvara. Menn hafa spáð núna fyrir um það í 150 ár eða síðan í iðnbyltingunni að bráðum verði tækin svo ofboðslega frábær og æðisleg að hún taki af okkur alla vinnuna og við verðum öll atvinnulaus. Núna mælist 2,9% atvinnuleysi á Íslandi þrátt fyrir miklu meiri tækniframfarir en við höfum getað ímyndað okkur síðastliðin 150 ár. Það er sá fyrirvari sem ég geri.

Hins vegar hafa orðið tækniframfarir, eins og málgreining og fleira sem tekur við því sem við höfum hingað til sinnt, sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér að mundi gerast. Ég ætla ekki að segja lögfræði eða forritun eða svo háæruverðug störf — segi ég og horfi á 5. þm. Reykjav. n. En samt, kannski gerist það á næstu áratugum.

Ég held enn fremur að með allar þessar tækniframfarir í framtíðinni ættum við að geta leyft okkur meiri frítíma í lífinu. Mér finnst ekki rökrétt að við séum að vinna að jafnaði átta tíma á dag miðað við einhverja iðnbyltingarstaðla. Mér finnst miklu frekar að við eigum að nýta þá gríðarlegu verðmætaaukningu sem á sér stað í samfélaginu með tækniframförum til þess að vinna minna. En það þýðir að við þurfum að hafa kerfi sem gera ráð fyrir því kerfi sem við höfum ekki í dag. Borgaralaun er ein af þeim hugmyndum sem hugsuð er til þess að reyna að búa til einhvern veginn þannig raunveruleika. Það á eftir að sjást hversu raunhæft það verður. Það kemur ekki í ljós næstum því strax. En ég hygg að það sé þess virði að velta fyrir sér hvernig maður mundi búa til kerfi sem gerir ekki ráð fyrir því að við séum alltaf að vinna þar til við getum allt í einu ekki unnið. Ég held að það sé alveg kominn tími til þess að koma fram með einhverjar stórar lausnir til þess að gera slíkt að raunveruleika án þess að það sé stanslaus krísa vegna þess að við gleymdum að gera ráð fyrir því að einn daginn yrðum við öll gömul, eða vonandi sem flest í það minnsta.

Nú hef ég ekki tíma fyrir meira, virðulegi forseti. En ég ítreka að mér finnst að þetta mál þurfi miklu meiri tíma en við höfum hér eftir á þingi til þess að ræða það.