145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er í þessu máli verið að taka út, samkvæmt skjali sem ég útbjó áðan, fjórar og hálfa blaðsíðu, heilan kafla, úr lögunum. Það er gott ef það er svo hugmyndafræðilega einfalt eins og hv. þingmaður nefndi, en það er hins vegar þannig fyrir okkur ungu kynslóðina á hinu háa Alþingi sem þekkir einfaldlega málaflokkinn ekki nógu vel að við þurfum tíma til að kynna okkur málið. Það er bara þannig og hv. þingmaður verður að gjöra svo vel og lifa við það.

Hitt er að mér var sagt áður en ég steig í pontu að mín ræða yrði sú síðasta svo ég hef enga ástæðu til þess að standa hér og tefja málið. Þetta er síðasta ræðan og þetta verður síðasta andsvarið, ég geri ráð fyrir því nema einhver annar hafi beðið um orðið sem mér sýnist ekki. Ég tala um það sem ég tala um hér vegna þess að mér finnst mikilvægt að tala um það. Ef við ætlum bara að halda okkur við efnisatriði þessa máls þá ætti náttúrlega helst að sleppa 1. umr. til að byrja með vegna þess að 1. umr. er til þess ætluð, eins og ég skil þetta alla vega, að við ræðum þá hluti sem koma málaflokknum við þannig að það megi taka þá til hliðsjónar og inn í samhengið í nefndarstörfum sem koma á eftir, getur væntanlega skipt meira máli við 2. umr. eftir íhugun nefndar og þeirra sem á hlýddu. En eftir stendur að ég hef enga ástæðu til þessa að vera hér og tala eitthvað inn í nóttina vegna þess að þetta er síðasta ræðan eins og var skýrt hér áður.

Nú getur vel verið að hv. þingmaður hafi engan áhuga á borgaralaunum og hafi engan á huga á þeim hugmyndum sem eru til þess fallnar að reyna að búa til einhverja framtíðarlausnir í málaflokknum. Enn fremur getur verið, og ég ætla reyndar að fullyrða að svo sé, að hv. þingmaður hafi miklu meiri skilning á þessum málaflokki og miklu meiri reynslu en sá sem hér stendur. En það þýðir að sá sem hér stendur verður að velta fyrir sér fleiri möguleikum og verður að taka meiri tíma í að kynna sér það og tala um það. Það er bara þannig. Hv. þingmaður verður, með fullkominni virðingu, að lifa við það.