145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér hafa risið deilur vegna stjórnskipulegra álitaefna við innleiðingu tilskipana frá EES. Ég hef fært að því sterk rök, og fleiri þingmenn, að þau standist ekki stjórnarskrá. Einn af helstu ráðgjöfum þingsins í þessum efnum, doktor Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, hefur tekið undir þetta. Nú hafa þau tíðindi gerst að annar prófessor í stjórnskipunarfræðum hefur stigið fram og verið uppi með nákvæmlega sama málflutning. Stefán Már Stefánsson, sem um áratugaskeið hefur verið virtasti stjórnskipunarfræðingur hér á Íslandi, segir í Morgunblaðinu að hann sé sammála því að með þessari aðgerð sé verið að stíga stærsta skrefið í framsali á valdheimildum til erlendra stofnana frá því að EES-samningurinn var gerður. Hann slær í gadda að full samstaða sé með þessum emerítusum stjórnspekinnar með því að segja: Við Björg erum alveg sammála um þetta. Hann herðir enn á afstöðu sinni með því að ítreka með eftirfarandi hætti sína afstöðu: „Þeir eiga ekki að setja lög nema þau standist stjórnarskrána.“

Hér stöndum við frammi fyrir því að setja lög sem nú er komið fram að ríma ekki við stjórnarskrána, sem bókstaflega brjóta stjórnarskrána. Ætlar Alþingi að gera það án þess að kalla þetta fólk til fundar og fá að ræða við það þau rök? Upp á hvað býður Alþingi? Jú, í gær var haldinn fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Með hverjum? Með höfundi leiðarinnar sem þessir fræðimenn segja að dugi ekki. Með öðrum orðum: Sá maður sem á útfærsluna sem leiðir til brota á stjórnarskrá er eini maðurinn sem er kvaddur úr hópi fræðimanna til að ræða málin. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Það kemur ekki til mála að þetta mál (Forseti hringir.) verði hér afgreitt án þess að það fái sómasamlega afgreiðslu. Í því felst að rætt verði við þessa stjórnskipunarfræðinga.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna