145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Einu skýringarnar sem við höfum heyrt af því af hverju afgreiða þurfi þetta mál í dag lúta að því að það kunni að valda einhverjum vandræðum úti í heimi verði málið ekki afgreitt hratt. En fundurinn þar sem afgreiða átti málið var haldinn í morgun, það liggur ekkert á. Það er mjög athyglisvert að sjá að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki neinn áhuga á því að standa í lappirnar gagnvart viðsemjendum að þessu leyti og vilja hraða hér máli í gegn sem brýtur að öllum líkindum gegn stjórnarskrá, í ljósi yfirlýsinga okkar færustu sérfræðinga þar um.

Mér finnst fjarvera þingmanna Framsóknarflokksins úr umræðunni eftirtektarverð. Ég hlýt að kalla eftir því að stjórnarmeirihlutinn axli ábyrgð á því að ef málið gengur hér í gegn með þessum hætti mun aldrei verða ástæða héðan í frá til að setja framsalsákvæði í stjórnarskrá. Þá er einfaldlega búið að staðfesta af Alþingi að þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar megi Alþingi framselja vald úr landi. Punktur. (Forseti hringir.) Ég er ekki sammála þeirri túlkun á stjórnarskrá Íslands. Ég lýsi (Forseti hringir.) ábyrgð á hendur forsætisráðherra og stjórnarmeirihlutanum (Forseti hringir.) að koma á þeirri túlkun á stjórnarskrá Íslands.