145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

kostnaður við ívilnanir til stóriðju.

[11:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta merkileg umræða um mjög mikilvægt mál. Undirliggjandi er eitt stærsta deilumál þessarar þjóðar sem er stóriðjustefnan og átökin um stóriðjustefnuna. Mér finnst það merkilegur áfangi í því máli öllu saman að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja að hér verði ekki reist fleiri álver. Það finnst mér mikilvægt að heyra. Fyrir mér hefur það blasað við sem alveg augljóst að væri rétt að segja. Orkan er einfaldlega ekki til. Þar að auki er það kolröng atvinnustefna.

Það er merkilegt að heyra líka þær áherslur sem hæstv. ráðherra setur á nýsköpun, hugvit, skapandi greinar, ferðaþjónustu. Þetta er nýr tónn. Það eru margir í þessum sal og úti í þjóðfélaginu sem hafa barist fyrir því að sá tónn verði ráðandi í atvinnustefnu þjóðarinnar en ekki stóriðjustefnan. Um hvað snerist Kárahnjúkamálið? Ég held að það sé stærsta einstaka deilan um stóriðjustefnuna sem farið hefur fram. Hún skipti þjóðinni algerlega í tvennt.

Það var farið í það sem kallað var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Óspillt náttúra var eyðilögð. Náttúra sem síðan er núna algerlega viðurkennt að færi okkur mikil gæði og miklar gjaldeyristekjur og er eftirsótt. Þetta var eyðilagt og ekki einu sinni metið til fjár á þeim tíma. Það var farið í stórbrotnar ívilnanir fyrir eitt fyrirtæki sem tekur alla þessa orku. Það var dregið í efa með mjög athyglisverðum hætti að þetta mundi nokkurn tíma verða arðbært því að orkuverðið var svo lágt. Síðan hefur tekið mörg ár að reyna að vinda ofan af þessu. Komið hefur í ljós að fyrirtækið borgar ekki einu sinni þá skatta á Íslandi sem það ætti að gera. Þetta einstaka dæmi, og það hefur greinilega (Forseti hringir.) tekið svolítinn tíma fyrir marga í pólitíkinni, er auðvitað núna, þegar sagan bregður ljósi á þetta, (Forseti hringir.) einstakur vitnisburður um að stóriðjustefnan er fullkomlega fáránleg. (Forseti hringir.) Við eigum að leggja áherslu á ferðaþjónustu, skapandi greinar (Forseti hringir.) og allt það sem við lögðum áherslu á í fjárfestingaráætluninni 2012.