145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjárhagsstaða heilsugæslunnar.

[11:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það berast óþægilegar fréttir úr heilsugæslunni. Á forsíðu Fréttablaðsins mátti lesa um áhyggjur svæðisstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Grafarvogi sem sér fram á 60 millj. kr. niðurskurð í heilsugæslunni í Grafarvogi eingöngu miðað við þær áætlanir sem nú hafa verið lagðar fram.

Í því samhengi ætla ég að spyrja ráðherra: Í vor tókum við í Samfylkingunni og öðrum minnihlutaflokkum mjög ábyrga afstöðu við afgreiðslu á frumvarpi um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Þar átti að setja á hámarksgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu 95 þús. kr. en með þrýstingi fengum við það lækkað niður í 50 þús. kr. hámark á ári. Þá tókum við þátt í því að veita ráðherra auknar heimildir til að setja á þjónustustýringu sem mundi auka að sjálfsögðu álag á heilsugæsluna. Við treystum okkur ekki til að standa að því með ráðherra nema inn kæmu auknir fjármunir í heilsugæsluna. Í nefndaráliti sem bæði hæstv. heilbrigðisráðherra hafði vitneskju um og hæstv. fjármálaráðherra frá nefndinni kemur fram að 300–400 milljónir eigi að koma inn í heilsugæsluna þegar á þessu ári. Þetta voru fjármunir inn í þegar fjársvelta heilsugæslu, en ekki fjármunir til að fjármagna nýjar heilsugæslustöðvar.

Ég óska því eftir skýringum (Forseti hringir.) á þessu frá ráðherra og spyr: Af hverju sér (Forseti hringir.) 300–400 millj. kr. ekki stað í frumvarpi til fjáraukalaga?