145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er það sem veldur mér vonbrigðum. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er vissulega jákvætt að þessi tappi skuli tekinn úr en það þarf kosningar til. Ég tek alveg undir það og fagna þessari áætlun, en það er reyndar ansi seint í rassinn gripið, eins komið og hefur fram hjá mjög mörgum og þeim sem um málin sjá.

Í ljósi þess að málið er búið að vera þrjú ár í umfjöllun, búið er að skila skýrslu um hvað gera á varðandi innanlandsflugið og lækkun fargjalda og allt það, þá finnst mér málið vera hálfpartinn á byrjunarstigi miðað við nefndarálitið. Ég hef það eftir ákveðnum leiðum að sú skýrsla sem unnin var hafi ekkert verið skoðuð. Það þykir mér mjög bagalegt.

Gott að þessir fjármunir eiga að fara í þetta verk. Það er líka áhyggjuefni að skoska leiðin sem hér er nefnd ítrekað hafi ekki verið skoðuð allan þennan tíma.

Mig langaði aðeins spyrja hv. þingmann út í fjármögnun almenningssamgangna. Hér er aðeins talað um almenningssamgöngur og vandræði þeirra. Ég hef, eins og margir, haft þungar áhyggjur af því að mikið tap hefur verið á þessum leiðum og hefur norðursvæðið, sérstaklega hjá okkur, verið í miklum vandræðum. Hefur þessi fjármögnun verið rædd eitthvað í nefndinni, þ.e. hvernig á að bera sig að? Hér er lagt til að 75 millj. kr. eigi að mæta uppsöfnuðum halla, en það er eins og ekki sé tekið formlega á því til lengri tíma varðandi endurgreiðslu olíugjaldsins eða neitt svoleiðis. Þetta er bara til þess að taka á núverandi stöðu en ekki til framtíðar og (Forseti hringir.) ekki skoðað hvernig menn eiga að bera sig að í þessu efni.