145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar aðeins að forvitnast um eitt vegna þess að það er svo merkilegt að það sé fyrst núna verið að fara að samþykkja samgönguáætlun. Í nefndaráliti meiri hlutans er þetta eitthvað rakið, það er búið að leggja hana fram núna, var lögð fram á 141. löggjafarþingi en var ekki rædd, aftur á 143., hlaut ekki afgreiðslu og aftur á 144. þingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Ég hef aldrei almennilega skilið hvernig stendur á þessu. Ef hv. þingmaður getur aðeins útskýrt það fyrir mér af hverju samgönguáætlun hefur ekki verið afgreidd rétt eins og við fáum inn fjárlög og alls konar mikilvæg mál sem fara í sitt ferli hér í þinginu og eru kláruð. Það er eitt.

Síðan það sem hv. þingmaður var að tala um, ábyrgð okkar gagnvart erlendum ferðamönnum sem ég er svo hjartanlega sammála. Mér finnst það ábyrgðarhluti að standa í markaðssetningu og opna landið fyrir ferðamönnum, þá verðum við líka að vera í stakk búin til að taka á móti þeim. Ég geri mér grein fyrir að þetta er stór og mikil áskorun því að vegakerfi okkar er mjög stórt. Ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um einbreiðu brýrnar og hættulegu vegina og malarkantana alltaf í vegum sem ég held að séu mjög hættulegir vegna þess að þegar menn fara af malbiki yfir á malarkantinn þá eigum við jafnvel reyndir bílstjórar á Íslandi í erfiðleikum með það. En svo eru það hlutir eins og merkingar sem ég held að sé alls ekki svo dýrt að bæta úr. Ég var í Slóveníu í sumar. Þar voru rosalega góðar merkingar. Jafnvel á á einum stað þá var innkeyrsla bönnuð (Gripið fram í: Evrópusambandið.) — já, Evrópusambandið — en ef maður hefði óvart ekki séð þetta risastóra merki, rautt með hvítu striki, þá var annað aðeins innar. (Forseti hringir.) Ég held að stundum vanti upp á þetta hér af því að við þekkjum til hérna en þetta verður að vera bara alveg eins og fyrir börn þannig að þetta sé skýrt.