145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég hef flutt margar ræður úr þessum ræðustól um samgöngumál, um samgönguáætlanir, og efnislega hafa þær allar verið frekar samhljóða, þess efnis að samgönguframkvæmdir væru af hinu góða og við ættum að reyna að gera eins mikið af því að bæta samgöngur og mögulegt er. Samgöngumálin eru svolítið merkilegur málaflokkur sem ég flæktist inn í fyrir slysni fyrir um áratug þegar ég varð aðstoðarmaður samgönguráðherra í ríkisstjórninni 2007–2009, einmitt á því ári sem framlög til samgöngumála voru hæst í sögu landsins, Íslandssögunni, að ég held 2,5% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það voru, ef ég man, rétt rúmlega 32 milljarðar sem voru veittir til samgöngumála á því metári, auðvitað allt mér að þakka eða alla vega að stórum hluta, ég er nú að grínast, virðulegi forseti, en samt ekki. Síðan hefur þetta legið heldur niður á við, eins og tafla sýnir sem við í minni hluta samgöngunefndar birtum með áliti okkar. Þetta hefur aldrei náð þessum hæðum. Á síðasta kjörtímabili þar sem við blasti hundruð milljarða niðurskurður er kannski skiljanlegt að það hafi ekki verið með mesta móti en frammistaða meiri hlutans á þessu kjörtímabili hefur verið, eins og ég kom að í andsvari við einn hv. þingmann stjórnarliðsins áðan, hraksmánarleg. Það hefur í raun og veru ekki verið forgangsraðað á þessu sviði. Það hefur ekki verið litið svo á að þessi málaflokkur skipti það miklu máli að ástæða væri til þess að veita umtalsverða fjármuni, orku og athygli í það að byggja upp samgöngur.

Það er það sem gerir þetta að svolítið sérstökum málaflokki. Þetta er frábrugðið því sem ég á að venjast í samskiptum mínum sem stjórnmálamaður við almenning, þ.e. að það sé áhugaleysi á þessum málaflokki, vegna þess að þetta er málaflokkur sem allir hafa áhuga á. Þetta er málaflokkur sem skiptir fólk gríðarlega miklu máli. Það er eiginlega hvergi í samfélaginu sem fólk hefur jafn ákveðnar skoðanir, hvort sem það er á uppbyggingu vega, staðsetningu flugvalla, á ólíkum samgöngumátum, á hjólreiðum, almenningssamgöngum, einkabílismanum, flugsamgöngum til og frá landinu, fólk hefur gríðarlegan áhuga á því. Það finna allir þegar vel er tekið til hendinni í þessum málaflokki hvað það skiptir miklu máli.

Samgöngubætur og það að tala fyrir þeim er í fljótu bragði eitthvað sem er ekkert sérstaklega spennandi en það er í raun og veru ekkert sem er jafn virðisaukandi fyrir samfélagið eins og það að bæta samgöngur. Þannig birtist það okkur í heimssögunni, þar sem ráðist hefur verið í framkvæmdir á sviðum samgangna, þar sem menn hafa sett niður hafnir, þar sem ár hafa verið brúaðar, þar hefur framþróun orðið. Þar hafa orðið til borgir, þar hafa orðið til samfélög sem enn þann dag í dag og gegnum árhundruð hafa verið miðpunktur verslunar og þjónustu og eru fjölmennustu svæði heimsbyggðarinnar í dag. Allt er þetta af því að á einhverjum ákveðnum punktum, vendipunktum í samgönguæðum, voru sett niður mannvirki sem skiptu sköpum, í árdaga hafnirnar og ferjustaðir og síðar brýr.

Við þurfum ekkert að leita lengra en í t.d. Landeyjahöfn, sem er auðvitað umdeild framkvæmd, til þess að átta okkur á því hvað slík framkvæmd getur haft mikla þýðingu fyrir samfélag, vegna þess að á þeim örfáu árum sem liðið hafa frá því að sú höfn var tekin í notkun, þótt hún sé ekki heilsárshöfn, hafa orðið algjör stakkaskipti og umbreyting á Vestmannaeyjabæ yfir sumartímann, vegna þeirra möguleika sem þar hafa skapast.

Í andsvari áðan við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur gerði ég tilraun til þess að ræða um sérstakt áhugamál mitt sem er uppbygging á sviði hjólreiða. Því miður hefur okkur ekki tekist á landsvísu að búa okkur til svokallaða hjólreiðaáætlun, sem að mínu mati á að vera hluti af samgönguáætlun landsins. Það á að gera áætlun um það hvernig við ætlum að gera fólki kleift að ferðast á hjólum um landið, hvernig við getum samstillt sveitarfélögin til þess að þau allan hringinn í kringum landið geri íbúum sínum kleift að nota hjólið sem samgöngutæki og ekki aðeins yfir sumarið heldur allan ársins hring. Það er mín reynsla og það hefur verið sýnt fram á það með heimspekilegum rannsóknaraðferðum, Róbert H. Haraldsson gerði tveggja ára tilraun þar sem hann hjólaði hvern einasta dag á höfuðborgarsvæðinu til og frá vinnu og komst að því að hann gat hjólað alla daga nema tvo.

Sveitarfélög í löndunum í kringum okkur hafa fyrir a.m.k. tveimur til þremur áratugum tekið ákvarðanir um það að haga uppbyggingu á samgönguæðum sveitarfélaga sinna þannig að fólk geti notað hjólið allan ársins hring sem samgöngutæki. Við sjáum það þess vegna í höfuðborgum annars staðar á Norðurlöndum og í stærri bæjum að þar er allt önnur hjólreiðamenning en er hér. Þetta eru oft snjóþung svæði. Þar er oft mikill kuldi á veturna, ekki jafn vindasamt og á Íslandi, en það er ekki hægt að segja að það sé óhagstæðara veðurfar til þess að nýta þetta. Menn hafa einfaldlega komist að því að ef fólki eru búnar þær aðstæður að þetta sé hægt þá nýtir fólk sér það. Það þýðir að menn ryðja hjólastígana fyrst, eða alla vega á sama tíma og göturnar eru ruddar, og fólki er gert kleift með samspili almenningssamgangna og hjólreiða að nota þennan samgöngumáta, sem er bæði efnahagslega hagkvæmur fyrir fólk, er heilsueflandi, skilar fólki betur undirbúnu til vinnu og heim til sín að lokinni vinnu og er umhverfisvænn, er ekki mengandi og er þess vegna ótvírætt til mikilla samfélagsbóta ef þetta er gert á þennan hátt. Við höfum líka orðið vör við það sem ferðumst mikið um landið að það er aukinn áhugi á því að nota reiðhjólið sem samgöngutæki til þess að ferðast um landið.

Fyrir um tveimur árum flutti ég hér þingsályktunartillögu um uppbyggingu ferðaleiða á Íslandi sem var samþykkt í þinginu. Hún fól í sér þá tillögu að ráðist yrði í samþættingu í kortagerð og ferðaleiðum þannig að menn væru með samspil ólíkra ferðamáta, fólki væri gert kleift að nota sérstakt kort og ferðast um landið með ólíkum ferðamáta, kannski fótgangandi eða á hjóli eða á hestbaki, en nýta sama kortagrunninn. Ég veit ekki hversu langt sú vinna er komin innan framkvæmdarvaldsins eða innan ráðuneytanna en þingið sendi þarna mjög mikilvæg skilaboð um að það vill að ríkisstjórn landsins, ráðuneytin, leggist í undirbúning sem er sambærilegur þeirri vinnu sem við höfum séð í löndum eins og Sviss, Austurríki og víðar í Evrópu, þar sem menn hafa einmitt búið til mjög flott kerfi hjólreiðastíga, göngustíga, sem kallast á við almenningssamgöngukerfi. Fólki er gert mjög auðvelt að ferðast um löndin og nýta til þess ólíkan ferðamáta.

Hluti af þeirri tillögu var að Ísland mundi skilgreina ákveðnar leiðir innan lands sem svokallaðar Velo-hjólaleiðir, sem er net hjólreiðastíga um alla Evrópu. Það er auðvitað það sem við eigum að vera að gera frekar en að vera að ræða það hvernig við getum tekið hjólin af þjóðvegakerfi landsins, eins og manni heyrist sumir tala um að sé þörf á að gera. Það er miklu nær að við högum uppbyggingu þjóðvegakerfis okkar þannig að fólki sé gert kleift að nota hjólið á þeim.

Þetta var það sem ég vildi segja um hjólreiðaáætlanir. Ég sakna þess auðvitað að það sé engin slík framsýni á ferðinni í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar, það er í rauninni engin framsýni sjáanleg þar þegar kemur að öðrum samgöngum heldur, það er eiginlega meira verið að horfa í baksýnisspegilinn og búa til áætlanir um það hvernig menn hefðu viljað gera hlutina fyrir tveimur árum. Auðvitað hefði samgönguáætlun fyrir árið 2015 átt að vera búin til og afgreidd árið 2014, ekki satt? Eða er ekki svolítið undarlegt, frú forseti, að málum sé þannig háttað að við séum í lok árs 2016 að búa til áætlun um samgöngur á síðasta ári? Það er súrrealískt og segir allt sem segja þarf um áhuga stjórnarflokkanna á þessu máli og þessum málaflokki.

Svo er hitt sem mig langar að gera að umtalsefni í síðari hluta ræðu minnar. Það er mér gersamlega hulin ráðgáta hvers vegna stjórnarflokkarnir hafa haldið á þessum málaflokki sem raun ber vitni, að ekki sé búið að klára samgönguáætlun. Það var ekki gert þingveturinn 2013–2014. Það glitti þó í samgönguáætlun. Hún var lögð fram í lok þingvetrarins, ef ég man rétt, var ekki kláruð eða kom ekki til atkvæða í þingsal, en lá engu að síður fyrir. Hvað gerðist þá haustið 2014? Þá hefði maður búist við því að stjórnvöld sem væru með tilbúna samgönguáætlun að vori 2014 mundu í byrjun þings 2014 koma með sömu samgönguáætlun, leggja hana fram og mæla fyrir henni í þinginu og láta umsagnarferli hefjast og umhverfis- og samgöngunefnd hefja vinnu sína við áætlunina. Gerðist það? Nei, það gerðist ekki neitt. Það kom engin áætlun. Það leið og beið alveg þangað til hillti undir lok þess þingvetrar, þá kom tillagan aftur og ekkert gerðist.

Svona hefur sú hrakfarasaga verið endurtekin þangað til núna að við erum á síðustu sekúndum þessarar ríkisstjórnar í umræðum í algerri óvissu um samgönguáætlun og það hillir undir möguleikann á því að samgönguáætlun, eina samgönguáætlun þessarar ríkisstjórnar, þessara stjórnarflokka, verði samþykkt í þinginu. Er það vegna þess að stjórnarflokkarnir glímdu við óvenju stór verkefni á kjörtímabilinu? Nei, það voru nú dálítið meiri og stærri verkefni sem blöstu við stjórnarflokkum síðasta kjörtímabils en á þessu. Var meiri hlutinn eitthvað tæpari? Var mannekla í stjórnarflokkunum? Nei, þetta var stór meiri hluti, 38 manna meiri hluti. Hvernig stendur á því að ekki náðist að klára að gera samgönguáætlun? Hvernig má það vera, frú forseti? Voru ekki til nægir fjármunir til þess að setja í málaflokkinn? Voru ekki einhverjar leiðir, einhverjar breytingar sem hægt var að gera á forgangsröðun þegar kom að ráðstöfun fjármuna sem hefðu leitt til þess að menn hefðu getað staðið sig betur en raun ber vitni? Jú, það var ítrekað reynt allt kjörtímabilið, alveg frá fyrstu dögum núverandi ríkisstjórnar, alveg frá fyrstu vikum núverandi stjórnarflokka í þingsalnum, með margvíslegum rökum, með fjöldanum öllum af ræðum sem fluttar voru í þingsal, að sýna núverandi ríkisstjórnarflokkum með hvaða hætti þeir gætu sinnt vinnu sinni þannig að betur horfði í þessum málaflokki.

Í mínum þingflokki lögðust menn t.d. eindregið á móti ráðstöfun á 80 milljörðum til hinnar svokölluðu leiðréttingar, einstaklega ómarkviss aðgerð sem dreifðist með mjög ómarkvissum hætti og allra síst til þeirra sem mest þurftu á slíkri aðkomu ríkisvaldsins að halda, með því að mótmæla lækkun á veiðigjaldi í upphafi þessa kjörtímabils og benda á að það mætti með því að viðhalda því nýta þá fjármuni til þess að arður af sameiginlegri auðlind landsmanna leiddi til uppbyggingar innviða samfélagsins, en það var ekki hlustað á neitt af þessum ræðum. Það var ekki áhugi á því að ráðast almennilega á þennan garð, á þetta verkefni, á að sinna því með sómasamlegum hætti.

Það er auðvitað margt jákvætt í breytingartillögum frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem hægt er að segja að sé hið besta mál. En það er háðulegt að horfa upp á slíkar tillögur afgreiddar rétt áður en þingi lýkur og rétt áður en menn eru að fara í kosningar. Þetta er eiginlega kosningasamgönguáætlun. Þetta eru kosningabreytingartillögur. Við eigum eftir að sjá hvernig þeim reiðir af í þinginu og óskandi væri að þær yrðu samþykktar, en það er algjör neyðarlending hjá stjórnarflokkunum í þessum málaflokki. Það er síðasti séns til þess að bjarga andlitinu þegar menn eru í raun og veru með allt niður um sig í þessum málaflokki. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því.

Það er líka neyðarlegt að verða vitni að því þegar stjórnarflokkarnir segjast hafa mikinn metnað í þessum efnum að þeir skuli leggja fram, og það meira að segja ráðherrar úr sama flokki, úr Sjálfstæðisflokki, samgönguáætlun og síðan fjármálaáætlun til lengri tíma þar sem upphæðirnar stangast á, þar sem munar milljörðum á milli þess sem menn ætla að ráðast í. Það bendir til þess að það verklag sem leiðir til þess að við erum hér að samþykkja eða fjalla um samgönguáætlun tvö ár fram í tímann hafi líka verið notað þegar menn voru í útreikningum, það voru ekki eðlileg samskipti, það var ekki almennileg verkstjórn. Það er það sem er (Forseti hringir.) lokapunkturinn í ræðu minni, frú forseti, það sem skortir í þessu máli og svo átakanlega er (Forseti hringir.) almennileg og vönduð pólitísk verkstjórn.