145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hitti vin minn í hádegismat á dögunum og ég spurði hvað hann væri að gera þessa dagana, en hann hefur gert ýmislegt í gegnum tíðina. Þá sagði hann mér að hann væri ásamt kunningjum sínum að gera heimildarmynd um vegakerfið á Íslandi. Þessi ungir maður sem ég hef þekkt lengi, og ég hef ekkert vitað af þessum áhuga hans á vegakerfinu, var sem sagt að gera heimildarmynd um vegakerfið. Hann sagði mér að þessi heimildarmynd ynni sig eiginlega sjálf. Það hefðu allir sem hann talaði við svo miklar skoðanir á vegum, á samgöngum, að hann þyrfti ekkert annað en bara ræsa myndavélina og láta fólk tala. Þetta væri sérstaklega athyglisvert núna vegna þess að ástandið væri svo slæmt um allt land á vegunum og álagið svo mikið að það væri innibyrgð reiði hvar sem hann kæmi og fólk væri að springa úr skoðunum á þessu máli. Þetta vitum við auðvitað sem erum í pólitík. Við vitum að þetta eru einhver heitustu umræðuefni sem fyrirfinnast á fundum víða um land, ekki bara úti á landi heldur líka á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að þetta er stórt viðfangsefni borgaryfirvalda og bæjaryfirvalda á höfuðborgarsvæðinu og alls staðar, að sjá til þess að fólk komist þægilega á milli staða og á öruggan hátt, sjá til þess að samgöngur séu umhverfisvænar og þær mæti nýjum kröfum um hjólreiðar, skapa tækifæri fyrir nýja orkugjafa og að mæta auknu álagi út af stórkostlegri fjölgun ferðamanna. Það er mjög áberandi á Suðurlandi. Það stendur upp úr öðrum hverjum manni á Suðurlandi að það sé bara tímaspursmál hvenær eitthvert stórslys verður þar af því að vegakerfið er að springa. Þetta blasir við.

Þess vegna er eitthvað svo sorglegt að standa hérna núna og vera að ræða samgönguáætlun. Jú, vissulega eins og hefur komið fram hafa verið gerðar ágætisbreytingartillögur en öll tilurð málsins og allur umbúnaður þessara mála á kjörtímabilinu er rannsóknarefni. Þessir flokkar, tveir elstu flokkar stjórnmálanna núverandi, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, af hverju hafa þeir á kjörtímabilinu svona gjörsamlega vanrækt það að fjárfesta í innviðum samfélagsins? Þeir hafa brugðist. Ég hefði haldið að þessir flokkar væru í miklum tengslum við fólk víða um land. Þetta er bara ráðgáta, hvert sem litið er. Að skila samgönguáætlun núna í síðari umr. í þinginu og hún er ekki fyllilega fram í tímann. Hún er tvö ár aftur í tímann. Þetta er bara djók, þetta er eitthvert vinnustaðagrín. Það er verið að spila með okkur hérna. Við erum að ræða áætlun aftur í tímann. Maður er alveg orðlaus. Ég hef ekki séð svona áður. Það eru þessir flokkar sem tala mikið um nauðsyn þess að viðhalda dreifðri byggð (Gripið fram í.) og allt það og stöðugleika út um allt land sem brokka inn í þingið með samgönguáætlun tvö ár aftur í tímann. Þetta er samgönguáætlun sem maður verður einhvern veginn að lesa í, ég veit ekki hvað tíðin heitir, þetta er líklega einhvers konar þáskildagatíð, hefði, mundi, hefði viljað vera svona ef þeir hefðu gert samgönguáætlun fyrr. Þetta er náttúrlega bara fyndið. Hvað er þetta?

Hér er undirliggjandi þema sem hefur verið mjög áberandi á kjörtímabilinu. Ég sé þetta einhvern veginn svona: Hér varð hrun, svo ég segi þá lykilsetningu í þessari ræðu sem mér finnst að eigi að koma reglulega fram: Hér varð hrun. Viðbrögðin við hruninu voru að mínu mati tvenns konar, annars vegar var skiljanleg reiði, mjög mikil reiði og fólk varð fyrir miklum áföllum. Hins vegar fór fólk út um allt í þjóðfélaginu að gera áætlanir í háskólasamfélaginu, verkalýðsfélögunum og þáverandi ríkisstjórn stóð fyrir alls konar áætlanagerð. Það var farið um allar byggðir landsins og gerð sóknaráætlun. Við í Bjartri framtíð sem var þá nýstofnaður flokkur áttum ríka aðkomu að gerð fjárfestingaráætlunar sem byggði á skýrslum sem höfðu verið gerðar um helstu sóknarfæri Íslendinga. Það var hafið samráð sem vonandi lýkur einhvern tímann um nýja stjórnarskrá. Unnar voru metnaðarfullar áætlanir um endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins og hvernig ætti að byggja nýjan spítala, um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Hvert sem litið var var verið að vinna svona áætlanagerð, sem var skynsamlegt. Þetta gerðist í samfélaginu og augljóst að það besta sem við gátum gert var að horfa fram á við, sjá hvernig við gætum skref fyrir skref unnið okkur upp úr þessu, byggt á eigin styrkleikum, byggt á styrkleikum landshlutanna, spurt t.d. hvar væru nauðsynlegustu vegasamgöngurnar. Í fjárfestingaráætlun var mjög stór kafli um nauðsynlegar fjárfestingar í vegaframkvæmdum fyrir utan eiginlega samgönguáætlun, til að gefa í. Ég nefni líka uppbyggingu græna hagkerfisins, tillögur í 50 liðum um hvernig væri hægt að byggja það upp.

Það er svo merkilegt að það fyrsta sem ríkisstjórnin gerir, það er algjörlega rauður þráður hjá henni og algjörlega viljaverk og hlýtur að byggja á einhverri hugmyndafræði, hlýtur að byggja á einhverri pólitík, að það var hætt við þetta allt saman. Hætt við þetta allt. Það virðist einhvern veginn litið svo á að þetta sé ekki nauðsynlegt, eitthvað sem eigi ekki að gera. Síðan þá höfum við horft upp á að það er allt í upplausn með það hvort eigi að byggja þennan nýja spítala, menn vita það ekki alveg, menn tala þvers og kruss. Sóknaráætlun er í mýflugumynd. Fjárfestingaráætlun er ekki neitt neitt, en þó er hæstv. fjármálaráðherra byrjaður að tala um það núna að kannski sé skynsamlegt að setja fé í græna hagkerfið og skapandi greinar og fleira, algjörlega nýr tónn. Menn eru aftur að rífast um Reykjavíkurflugvöll. Menn eru aftur að rífast um Evrópusambandið, en það var eitt ferlið sem menn voru með í lýðræðislegri áætlanagerð og ætluðu að reyna að leysa. Það er upp í loft. Svo er það ákveðinn lágpunktur, eða hápunktur ef við lítum á þetta sem einhvers konar vinnustaðagrín, að koma með samgönguáætlun sem er tveimur árum aftur í tímann. Þetta er stórmerkilegt. Þetta er vilji til að gera ekki áætlanir, til að horfa ekki fram í tímann.

Eitt stærsta viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar hefur verið að horfa aftur í tímann. Hennar stærsta verkefni heitir leiðrétting, sem snerist um að leiðrétta verðbólguskot sem gerðist nokkrum árum fyrr og gera það með mjög óréttlátum hætti, henda þeim peningum sem hefðu getað farið í að byggja upp framtíðina, vegna þess að það er það sem pólitík á að snúast um. Það hljómar kannski eins og klisja fyrir marga en pólitík á að snúast um að byggja fyrir framtíðina. Ríkisstjórnin hefur markvisst tekið peningana og sett í einhverjar fortíðarleiðréttingar. Þetta er svona. Þetta er munurinn á pólitíkinni. (Gripið fram í.) Já, ein áætlun sem kom þó um verklegar framkvæmdir kom frá þáverandi hæstv. forsætisráðherra um að byggja viðbyggingu við Alþingishúsið í anda teikninga Guðjóns Samúelssonar frá 1916. Svo að vernda gamla hafnargarða með ærnum tilkostnaði. Maður veit ekki alveg hvað maður á að segja um þetta. Fólk hlýtur að þurfa að hugsa fyrir næstu kosningar hvort það vilji langtímahugsun, hvort það vilji raunverulega reyna að setja eitthvað niður á blað um það hvert við stefnum og hvernig við ætlum að byggja upp, hvernig við ætlum að byggja upp vegakerfið og þar fram eftir götunum. Eða hvort það vilji bara hafa þetta svona, ákveðið einhvern veginn úr rassvasanum frá degi til dags liggur við.

Við erum núna stödd í þingi sem er án áætlunar. Það er líklega vegna þess að það er með vilja gert. Menn vilja hafa það þannig. Það getur verið mjög þægilegt fyrir svona gamla tegund af valdapólitík sem þessir flokkar standa fyrir og kunna líklega ekkert annað, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, þessa dagana, þessi árin. Þá getur það verið býsna þægilegt að hafa allt einhvern veginn í óvissu.

Í vegamálunum var hefðin sú í gamla daga að menn voru að víla og díla með þetta í bakherbergjum. Menn þóttu góðir ef þeir sköffuðu brú einhvers staðar eða sköffuðu einhverja vegaframkvæmd heima í héraði. Í svoleiðis tegund af pólitík var auðvitað ekkert gott að hafa einhverja áætlun, vera bundinn einhverju plaggi, a.m.k. betra að gera hana aftur tímann, vera búinn að víla og díla.

Samgönguáætlunarfyrirkomulaginu var gagngert komið á til þess að komast út úr þessari tegund af pólitík. Ef ég man þetta rétt þá held ég að það hafi verið í samgönguráðherratíð ágæts manns sem ég þekkti ágætlega, Steingríms Hermannssonar, 1980–1983. Þá var ákveðið að gera samgönguáætlanir og þótti mikil nýjung. Í því samhengi sem hlutirnir voru þá sér maður hvernig þetta var ný tegund af pólitík, að reyna að losna við þetta óvissuástand, þessar vílingar og dílingar, að menn gætu skákað í skjóli einhvers ógagnsæis, setja þetta niður á blað. Þetta var sem sagt stjórnsýsluumbót.

Eins og ég hef rakið, þó svo að Steingrímur hafi verið framsóknarmaður, þá virðist vera að Framsóknarflokkurinn í dag skilji þetta ekki, að Sjálfstæðisflokkurinn í dag skilji þetta ekki, ef nokkurn tímann, þeir virðast ekki fatta hversu mikilvægt það er að segja þjóðfélagi hvert við erum að fara.

Hér var hrun, segi ég. Það blasti við í eftirleik hrunsins að skera þurfti niður til allra lykilþátta samfélagsins; til innviða, til vegagerðar, til heilbrigðiskerfisins. Það var reynt að forgangsraða eftir bestu getu en upp undir 200 milljarða halli á ríkissjóði kallaði á mjög sársaukafullar aðgerðir. Hér kom Göran Persson, hélt mjög athyglisverðan fyrirlestur uppi í háskóla strax eftir hrunið og sagði: Já, það á að fara í þessar aðgerðir hratt og vel, en lykilatriði er að segja á sama tíma hvert við stefnum, hvenær birtir til, hvert förum við. Vegakerfið er náttúrlega algjör lykilþáttur í þessu. Það eru einhver stærstu vonbrigði held ég undanfarinna ára í pólitíkinni þar sem flokkar byggðir á þessum gamla grunni sem tóku við föttuðu ekki þetta hlutverk sitt, að reyna að taka þau plön sem voru gerð á þessum róstursömu árum og reyna að klára þau vegna þess að þau voru mikilvægur þáttur í batanum eftir hrunið. Það var mikilvægt að segja á þeim tímapunkti: Já, það hefur verið skorið niður til vegamála en nú gefum við í vegna þess að nú er peningurinn að koma inn, núna er uppgangurinn að hefjast. Það var fyrirsjáanlegt að uppgangur mundi hefjast. Núna getum við farið í að byggja upp heilbrigðiskerfið, við getum gert þetta núna vegna þess að peningarnir eru að koma og við skuldum þjóðinni það.

En ríkisstjórnin sem tók við fattaði ekki þetta hlutverk sitt. Hún fattaði ekki að ríkisstjórnin sem var eftir hrun var náttúrlega bara tiltektarstjórn, þurfti að laga til, reyna að koma öllu á réttan kjöl, snúa við gríðarlegum halla og reyna að gera það þannig að það yrði ekki allt of mikill skaði, og hún gerði það þessi ríkisstjórn vissulega með miklum gassagangi en það tókst og við njótum góðs af því, en ríkisstjórnin sem síðan tók við hélt að hún ætti að gera þetta líka. Hún hélt að hennar hlutverk væri það að eiga við eftirleik hrunsins og eyða öllum peningunum í að leiðrétta skuldir heimilanna sem höfðu þá þegar verið leiðréttar, voru þá þegar komnar undir ásættanlegt mark. Þetta var misskilningur þessarar ríkisstjórnar. Það hefði einhver þurft að segja henni að hlutverk ríkisstjórnarinnar sem tók við, þeirra sem hefur setið, var fyrst og fremst að byggja upp innviði. Það er átakanlegur vitnisburður um það hversu lítinn skilning ríkisstjórnin hefur á hlutverki sínu að hún kemur núna með samgönguáætlun sem er tvö ár aftur í tímann og hefur eiginlega enga þýðingu, hefur enga sérstaka þýðingu. Það er ekkert verið að segja mönnum að það eigi að gefa í í samgöngumálum. Áhyggjum alls þessa fólks út um allt land af umferðaröryggi og slæmum vegum er ekkert mætt. Sumir vegir á Íslandi eru ótrúlegir, ég sé ekki að nokkur önnur þjóð mundi sætta sig við þetta. Svo sjá allir þessa aukningu á fjölda ferðamanna en samt er fólki ekki sagt í samgönguáætlun að þetta muni batna. Það er meira að segja ekki farið að tillögu Vegagerðarinnar um nauðsynleg framlög til viðhalds. Hvað er það? Það þýðir að við söfnum upp þörf á viðhaldi sem er ekkert annað en skuldasöfnun.

Ef áætlun til langs tíma ætti að vera byggð á því að við leggjum ekki nægilega mikið til viðhalds þá þurfum við að afskrifa einhverja vegi. Ef ætlunin er að setja ekki pening, nægilegt fé í viðhald vega þá þurfum við að segja í áætluninni, sem ég mundi segja að ætti að vera alvöru tólf ára áætlun, hvaða vegir það eru sem við ætlum að hætta að nota.

Það er sem er svo merkilegt í þessu og undirstrikar algjörlega að það er rétt hjá mér að ríkisstjórnin fattar ekki nauðsyn langtímaáætlunar, hún hefur augljóslega engar áhyggjur af því, er að í ríkisfjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir því að auka framlög til vegamála. Það er meira að segja sagt í ríkisfjármálaáætluninni að opinberar fjárfestingar í innviðum muni ekki mæta afskriftum. Það er merkilegt að vera í pólitík og sjá svona setningu. Þetta þýðir á mannamáli: Þjóðfélagið mun versna. Ef menn ætla að hafa þessa áætlun svona, ef menn ætla ekki að leggja í viðhald og ætla ekki að fjárfesta sem nemur afskriftum, þá verða menn auðvitað að segja í langtímaáætlun hvað það er sem á að hætta með, hvaða vegi við ætlum að hætta að nota, hvaða skólar það eru sem við ætlum að hætta að nota og þar fram eftir götunum. Það getur vel verið að menn vilji ekki koma með þannig áætlanir inn í þingið.

Í öllu falli, hæstv. forseti, þetta metnaðarleysi í samgönguáætlun er angi af stærra máli, það er birtingarmynd þess að við erum með ríkisstjórn sem hefur algerlega misskilið hlutverk sitt. Ég spái því að hennar verði minnst fyrir það hvað hún var duglaus á mjög miklum örlagatímum í sögu þessarar þjóðar að byggja upp innviði nákvæmlega þegar það þurfti þess.