145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:15]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svo ótrúlega móðgandi fyrir Alþingi og fyrir þingmenn sem hér eru staddir að fá þær fréttir að formaður annars stjórnarflokksins skuli vera á kosningaferðalagi úti á landi á sama tíma og okkur er ætlað að halda þingfundi gangandi hér. Og að varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. innanríkisráðherra, sem á að vera viðstödd umræður um samgönguáætlun, skuli líka vera fjarverandi er svo mikil móðgun við þingið að það tekur eiginlega engu tali.

Ég velti því fyrir mér hvernig forseta sjálfum sé innan brjósts við þessar aðstæður, því að forseti á að vera forseti þingsins alls og gæta virðingar þingsins, að ekki sé troðið yfir það á skítugum skónum.

Að sjálfsögðu á að fresta hér fundi, virðulegi forseti, og ekki halda áfram fyrr en þessir ráðherrar eru komnir á staðinn og geta verið viðstaddir umræður hér og starfsáætlun liggur fyrir.