145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Forseti. Mig langar að gera að umræðuefni undir þessum lið stjórnmálaástandið í landinu. Það hafa nefnilega gerst tveir atburðir núna undanfarið sem benda til þess að hlutirnir gætu verið að færast í betra horf hér í landinu. Þá vil ég nefna sérstaklega kjör Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta Íslands, sem var gleðilegur áfangi í ljósi þeirra valkosta sem í stöðunni voru, annars vegar stjórnmálamaður mikilla átaka og hins vegar mannasættir á borð við Guðna Th. Jóhannesson. Það sama blasir við í mínum huga í nýliðnu formannskjöri innan Framsóknarflokksins. Ég vil nota þetta tækifæri hér til þess að óska Framsóknarflokknum til hamingju með að hafa tekið að mínu mati gæfuspor um helgina, vegna þess að valkostirnir þar voru af þessum tveimur skólum sem ég nefndi áðan, annars vegar maður sem gert hefur átök að meginstefi stjórnmálaferils síns og hins vegar hæstv. forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem hefur sýnt það á undanförnum mánuðum að hann er maður sátta, maður samtalsins, sem hægt er að ræða við og komast að niðurstöðu og hún stendur. Það er ánægjulegt.

Ég vil nota tækifærið undir þessum lið til þess að hvetja flokkana sem eru á þingi og þá sem eru í framboði til komandi alþingiskosninga að fara þá leið, að vera á nótum samtalsins, að vinna frekar í áttina að sáttinni og að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Það skiptir gríðarlega miklu máli, það eru tækifæri í því fólgin fyrir okkur og það er kominn tími til þess að kveðja tíma átakanna í pólitíkinni. (Forseti hringir.) Það er út af því sem við lögðum af stað í þann leiðangur sem Björt framtíð stendur fyrir, (Forseti hringir.) að reyna að breyta stjórnmálunum í þá átt. Það er mjög ánægjulegt að sjá það gerast og við eigum að nýta tækifærið og halda áfram á þeirri braut.