145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[11:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það má kannski væna mig um vænisýki, en ég held að það sé eitthvert plan í gangi, ég held bara að við hin fáum ekki að vita af því. Það skekkir alveg ótrúlega stöðu flokkanna gagnvart lýðræðislegum kosningum sem fara nú í hönd og er gríðarlega alvarlegt mál. Ég heyrði stjórnarþingmenn segja á göngunum fyrir nokkrum vikum að það væri allt í lagi að láta þingið vera svolítið lengi vegna þess að árið 2009 hafi það verið svo rosalega lengi, eiginlega bara alveg fram að kosningum.

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið alvarlegt. Árið 2009 vorum við að glíma við þjóðargjaldþrot. Það logaði allt í samfélaginu. Er það fordæmið sem verið er að vinna eftir, að vegna þess að þingið 2009 stóð svo lengi sé allt í lagi að láta bara þingin hér eftir líka dankast næstum alveg fram á kjördag?

Ég held að það þurfi nefnilega af mjög mikilli festu að kippa í taumana núna og segja, vegna þess að það verður væntanlega mjög mikil endurnýjun á næsta þingi, að þetta sé ekki í lagi, þetta sé ekki fordæmi. Það á að vera þannig í aðdraganda kosninga að allir sitji við sama borð. Starfsáætlunin sem nú er runnin úr gildi var niðurstaða samningaviðræðna. Það er mikilvægt að minna sig á það, hún var niðurstaða þess að flokkarnir settust niður og sögðu: Þarna á þingið að enda. Allir vissu af því. Núna er engin svoleiðis áætlun (Forseti hringir.) og það þýðir að flokkarnir sitja ekki við sama borð. Það er ámælisvert í lýðræðisríki.