145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í gær freistaði ég þess að sannfæra þingheim um að fólk ætti að kjósa Bjarta framtíð í komandi kosningum. Það urðu mér ákveðin vonbrigði að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom hér upp á eftir mér í þeim ræðutíma og lýsti því yfir að hún ætlaði ekki að kjósa Bjarta framtíð.

Ég geri því aðra tilraun. Mér finnst það svo augljóst, í lok þessa kjörtímabils, að það er pólitík Bjartrar framtíðar, stjórnmál Bjartrar framtíðar, sem eiga erindi við þessa þjóð. Við höfum séð að langtímahugsun hefur í máli eftir máli verið lögð til hliðar á þessu kjörtímabili, markvisst. Björt framtíð stendur fyrir langtímahugsun í pólitík. Björt framtíð hefur staðið vaktina þegar kemur að mannréttindamálum, umhverfismálum, málum sem varða fjölbreytni í samfélaginu. Við höfum talað fyrir því að byggja upp innviðina í samfélaginu, það hefur algjörlega verið látið reka á reiðanum á þessu kjörtímabili, markvisst. Áætlanir eru einfaldlega lagðar til hliðar, samgönguáætlun sem er tvö ár aftur í tímann.

Svo vil ég nefna annað í tilefni þess að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttur kom hér upp og talar um LÍN-málið. Líklega eru fá mál þar sem það kristallast jafn skýrt hve rosalega mikilvægt það er að átta sig á því að það skiptir máli hverjir stjórna. Björt framtíð hefði aldrei lagt fram svona frumvarp. Þetta frumvarp er unnið í algjöru samráðsleysi. Flokkarnir hér á þingi, ég held allir, vilja námsstyrkjakerfi, þeir vilja taka upp námsstyrki. En ríkisstjórnin kemur, algjörlega án samráðs, með frumvarp sem er þannig gert að allir námsmenn fá námsstyrki og þeir koma langsamlega verst út úr þessu sem þurfa virkilega aðstoð. Þeir sem þurfa aðstoð, einhleypir foreldrar, fólk í langskólanámi, fólk í félagslega erfiðri stöðu ber kostnaðinn af námsstyrkjunum fyrir alla hina. Það er svo ótrúlegt skilningsleysi á hugtakinu jöfnuði að maður á ekki orð. (Forseti hringir.) Og það er í máli eftir máli sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið inn með svona frumvörp (Forseti hringir.) sem hjálpa þeim sem þurfa þess ekki en sem bitna á þeim sem virkilega þurfa hjálp.

Pólitík skiptir máli og við þingmenn vil ég segja: Það þarf enginn að vita hvernig þið kjósið í kjörklefanum. Við erum efst á blaði, X-A.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna