145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður erum greinilega að hugsa á sömu nótum. Við fyrri spurningu var ég búin að skrifa hjá mér „brennsla á jarðefnaeldsneyti“. Það að hækka álögur á eldsneyti til að fá inn meiri skatt er líka aðgerð í loftslagsmálum. Það á ekki endilega að vera ódýrt að kaupa eldsneyti og við ættum að vera að gera allt sem við getum til þess að fara í orkuskipti og hætta að brenna jarðefnaeldsneyti. En það hefur aldrei mátt innheimta neinn skatt hjá þessari ríkisstjórn, hún er eitthvað viðkvæm fyrir því. Eins og hv. þingmaður sagði þá hefði verið svo gráupplagt að leggja skatt á eldsneyti á sama tíma og heimsmarkaðsverð er í lægstu í lægðum. Það er eiginlega óþolandi staða að hafa beinlínis misst af þeim tekjum.

Lögð var fram þingsályktunartillaga frá hæstv. atvinnuvegaráðherra um orkuskipti í samgöngum sem mér fannst nokkuð metnaðarfull svo framarlega sem hún gengur eftir. Við höfum í raun öll tækifæri til að rafbílavæða landið að miklu leyti og nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Ég treysti því að sú ríkisstjórn sem tekur við muni halda því máli áfram, taka það alla leið. Mér finnst metnaðarleysið hafa verið heldur mikið í þeim málaflokki. Það skiptir máli fyrir þá sem eru að fara að kaupa nýjan bíl að þeir viti hvernig menn hugsa þetta fram í tímann, hvort þeir séu þá t.d. að gera góð kaup.

Varðandi það hvort við í fjárlaganefnd höfum skoðað hvernig þetta kemur inn í loftslagsmálin og inn í áætlanir þá er það nú ekki svo, við erum kannski upptekin við annað þannig að ég get ekki svarað því. Ég get bara tekið undir að það að leggja aukaskatt á eldsneyti væri mjög mikilvægt og gott skref í átt að því að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti.