145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:45]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla í seinni ræðu minni aðeins að tala um almenningssamgöngur, sem eru mjög mikilvægar. Það var gerður samningur þannig að Reykjavíkurborg, ef ég skil það rétt, afsalaði sér í raun því að farið yrði í samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu en í staðinn verða almenningssamgöngur byggðar upp. Þetta var og er, held ég, af hinu góða. Það er mikilvægt að reyna að létta álaginu á vegakerfinu og bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þótt það sé vissulega áskorun. Menn hafa fett fingur út í það að fjármunir fari til höfuðborgarsvæðisins í þetta verkefni, en þá er rétt að minna á að á móti var ákveðið að bíða með framkvæmdir sem annars hefði þurft að fara í.

Við höfum verið að byggja svolítið upp borgir og bæi út frá einkabílnum og út frá þörfum einkabílsins og sjáum að það er ekki endilega gáfulegt, en á sama tíma þarf með einhverjum hætti að gera ráð fyrir einkabílnum. Mér fannst mjög áhugavert að í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, sem fékk að ég held umhverfisverðlaun Evrópusambandsins í ár, hefur miðbænum eða ákveðnu svæði verið lokað fyrir umferð og byggt fimm hæða bílastæðahús við jaðarinn á miðbænum. Þetta er töluvert stórt svæði. Þar er hljóðlátt og fólk gengur um og þeim sem þurfa að komast ferða sinna er reddað litlum rafbílum, þannig að eldra fólk og þeir sem eiga erfitt með gang komast ferða sinna á svæðinu. Þetta er rosalega framsýnt. Vissulega er veðurfar þarna gott en það er mjög merkilegt að upplifa, og þetta finnst okkur mjög sjarmerandi þegar við erum í útlöndum, að geta verið einhvers staðar og ekki með einkabílinn ofan í sér. Þá erum við gjarnan tilbúin til að ganga og finnst það ekki tiltökumál en svo erum við rosalega gjörn á að stökkva upp í bílinn og nota hann til að komast ferða okkar þegar við gætum raunverulega gengið og hefðum jafnvel gott af því að ganga. Sjálf á ég á bíl á móti annarri manneskju og þegar ég er með bílinn er tilhneigingin til að nota hann mjög sterk. Svo finn ég þegar ég er ekki með bílinn að ég kemst margt með því að ganga eða hjóla eða með strætó. Við gætum eflaust öll lagt eitthvað af mörkum til að minnka álagið sem einkabíllinn veldur og minnka þar með malbikið inni í borgum og bæjum, vegna þess að það er ekki endilega fallegasti hlutinn.

Ég tek þó alveg undir þau sjónarmið að við þurfum að hafa bílastæði. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk gangi langar vegalengdir. Ég skil áhyggjur kaupmanna af því en við þurfum samt ekki að leggja inni í versluninni. Það er stundum eins og menn séu of hræddir við það. En mér finnst t.d. bílastæðahúsin í kringum Laugaveginn í miðbæ Reykjavíkur algjör snilld. Það er ekkert óeðlilegt að við greiðum fyrir það að geyma bílinn okkar einhvers staðar.

Talandi um bílastæði og að greiða fyrir þá finnst mér líka sérstakt þegar við fáum hingað alla þessa ferðamenn, þurfum að byggja upp innviði, búa til bílastæði og stíga og annað í kringum náttúruperlurnar okkar, að við skulum vera treg til að rukka fyrir bílastæðin. Það er tiltölulega einföld gjaldheimta og gæti nýst til að byggja upp. Þannig er það víða erlendis. Maður fer ekkert endilega í fússi og leggur bílnum ókeypis þar sem manni sýnist, maður greiðir fyrir þá þjónustu. Þetta eru hugmyndir sem voru reifaðar í tengslum við náttúrupassann þegar við töluðum um hvernig við gætum skattlagt ferðamenn.

Minnst er á innanlandsflugið og flugsamgöngur í samgönguáætlun og það að dreifa álaginu, dreifa ferðamönnum betur yfir landið. Ég held að það séu góðar fréttir sem berast núna, að Flugfélag Íslands ætli að reyna að fljúga beint frá Keflavík norður, ég veit ekki alveg hvort þeir fara norður, austur og vestur í þessu flugi en þetta er tilraunarinnar virði. Ég hef í tvígang nýlega hitt fólk, útlendinga, sem hefur komið til Íslands og er yfir sig hrifið af Íslandi og þegar ég spyr hvort þeir hafi ekki örugglega komið til Akureyrar þá segja þeir: Nei ég kom að vetri til, þá er náttúrlega ófært. Er nokkuð hægt að komast þarna norður? Maður segir: Ég bý ekki á Svalbarða, það er ekki ófært. En þetta er tilfinningin sem fólk fær. Það er kannski ekkert skrýtið að fólk haldi að ef það fer út fyrir höfuðborgarsvæðið, tala nú ekki um ef það fer í norðurátt, muni það lenda í stórkostlegum vandræðum, kannski horfði þetta fólk á Ófærð þar sem allt var á kafi og allir fastir, en svo sýndu myndirnar frá höfuðborginni allt annað verðurfar. Þetta er því ekki endilega skrýtið. En þarna getur innanlandsflugið komið mjög sterkt inn því að fólk, eðli málsins samkvæmt, treystir sér ekki til að keyra á veturna en það gæti þá tekið flug.

Annað sem mér finnst mikilvægt er að við skoðum af alvöru hvort millilandaflug sé raunhæft frá Akureyri eða Egilsstöðum þar sem eru millilandaflugvellir og er alltaf eitthvað um bein flug frá þeim flugvöllum. Það væri gríðarlega mikilvægt. Ég er ánægð með að ríkisstjórnin hafi sett fjármagn í flugþróunarsjóð til að hægt sé að kanna það til hlítar. En eins og við höfum komið inn á þarf þá að tryggja ýmislegt, svo sem að flugvélaeldsneyti sé ekki dýrara þegar það er keypt úti á landi. Það liggur að held ég fyrir þingmál þess efnis hér, sem er mjög gott mál.

Það hefur aðeins verið rætt um fjármagnið sem við þurfum í mun meira mæli að setja í flugsamgöngukerfið. Ég held að meiri hluti og minni hluti sé sammála um að við mundum vilja setja meira fé í vegaframkvæmdir, viðhald, nýframkvæmdir og byggja upp vegakerfið okkar, taka á einbreiðu brúnum, útrýma þeim á þjóðvegi 1 og þar fram eftir götunum. En hvaðan þær tekjur eiga að koma er svo annað mál.

Hv. þingmaður sem talaði á undan mér talaði um þá leið sem víða er farin, að menn hreinlega borga skatt miðað við hvar þeir keyra. Þetta þekkjum við erlendis frá og eins vegatolla, að þurfa að fara í gegnum hlið. Það er aldrei ánægjuefni að borga hærri skatta en ég held að í þessum málaflokki sé þetta einfaldlega ekki spurning um hvort við viljum setja meira fé í hann, við þurfum að gera það og þá þurfum við líka að vera tilbúin að innheimta skatta til þess að standa undir uppbyggingunni. Einfaldast er að sjálfsögðu að hækka álögur á jarðefnaeldsneyti og tryggja að mörkuðu tekjurnar hækki í samræmi við verðlag, sem hefur því miður ekki verið gert nú þegar það voru í rauninni öll tækifæri til þess í ljósi þess hversu lágt heimsmarkaðsverð á eldsneyti er, olíu. Því miður var það ekki gert. Eins og ég þreytist ekki á að benda á þá ákvað þessi ríkisstjórn líka að setja 80 milljarða í skuldaniðurfellingu. Það eru ansi margir milljarðar sem ég hefði viljað nota í mörg önnur verkefni frekar en að dreifa þeim á tilviljanakenndan hátt til fólks sem margt hvert hafði ekkert með peningana að gera.