145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða um Skólaþing sem er ótrúlega mikilvæg fræðsla, sem fer fram hér á Alþingi, um það hvernig löggjafarvaldið virkar. Við þingmenn fengum að skoða Skólaþing þegar við byrjuðum. Ég vissi ekki að þetta væri til og mín börn í grunnskóla höfðu ekki fengið að fara í Skólaþing, enda búa þau úti á landi. Ég kallaði eftir upplýsingum um það hvaða skólar hefðu heimsótt Skólaþing og það eru meira og minna allt grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu og hér í kring. Í fyrstu upplýsingunum sem ég fékk kom til dæmis í ljós að ekki einn einasti grunnskóli á Austurlandi hafði haft tök á þessu. Ég kallaði svo eftir meiri upplýsingum fyrir síðasta vetur og sá þá að þar eru einhverjir skólar úti á landi en aðgengi þeirra að þessari fræðslu er auðvitað mjög lítið. Mér skilst að sambærileg fræðsla sé í Noregi og að þar styrki þingið einfaldlega skóla til að heimsækja skólaþingið. Ég get líka spurt: Af hverju ætti sambærileg fræðsla ekki að vera á Akureyri fyrir Norðurlandið?

Ég veit að þingið er ekki í færum til þess að styrkja mikið ferðir fyrir nemendur utan af landi en það mætti líka hugsa sér að bjóða fyrsta árs nemum í framhaldsskóla, sem oft koma til höfuðborgarinnar í einhvers konar ferðir; í það minnsta að haga þessu þannig að öll börn af öllu landinu fái þessa mikilvægu fræðslu. Og ef það vantar peninga til að styrkja þá mundi ég leggja til að alþingismönnum væri bara almennt gert að keyra á bílaleigubílum í stað þess að vera að borga aksturspeninga, sem er mjög dýrt. Þar held ég að Alþingi (Forseti hringir.) gæti sparað töluverðar upphæðir sem hægt væri að nýta í annað mikilvægara, m.a. að kynna Skólaþing fyrir öllum grunnskólabörnum á landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna