145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

kveðjuorð.

[14:18]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill þakka kærlega fyrir þau hlýju orð sem til hans féllu til Alþingis, samstarfsfólks hér í þinginu og starfsfólks Alþingis og kveður með söknuði gamlan vin og baráttufélaga í gegnum tíðina, hv. þm. Kristján L. Möller. Forseta finnst fara ákaflega vel á því að hv. þingmaður ljúki þingferli sínum með því að víkja að samgöngumálum, sérstaklega vegamálum, sem átt hafa mjög hug hv. þingmanns, eins og við öll vitum. Það er hægt að segja að hv. þingmaður hafi gert þetta með stæl, því að hér rýfur hv. þingmaður umræðu um samgönguáætlun til þess að flytja þessi góðu orð.

Við erum nú að kveðja ýmsa hv. þingmenn sem hér hafa starfað um alllanga hríð, aðrir halda áfram og auðvitað verður heilmikil breyting hér á þinginu.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að við brölluðum það saman í hléi frá ríkisstjórnarfundi að gera breytingar á nafngift jarðganga milli Ísafjarðar, Hnífsdals og Bolungarvíkur. Forseti hafði svo sem ekki ljóstrað því upp áður, en það kannski fer vel á því nú á tímum þar sem gerð er mikil krafa um gagnsæi í stjórnsýslunni að frá þessu sé sagt hér á Alþingi þannig að það sé orðið með óafmáanlegum hætti kunnugt öllum til framtíðar.

Forseti vill á þessari stundu óska hv. þingmanni og fjölskyldu hans allrar farsældar á komandi árum.