145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:06]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af umræðum sem spunnust um ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Önnu Margrétar Guðjónsdóttur, má ég til að blanda mér aðeins í þá umræðu um landsvæði eins og t.d. Vestfirði, hvort samgöngurnar séu helsti þröskuldurinn þar eða þá einhæft atvinnulíf, eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns. Ég vil aðeins fá að leggja orð í belg varðandi þetta. Ég er hrædd um að hið einhæfa atvinnulíf velti m.a. á samgöngunum. Það er ekki gott að þróa atvinnulíf og ýta undir nýsköpun, efla menntun og auka atgervi í landshlutum sem ekki búa við eðlilegar samgöngur. Samgöngurnar eru svo gríðarlega þýðingarmikill þáttur fyrir landsvæði hvað varðar samkeppnishæfi þeirra við aðra landshluta. Landshlutarnir keppa um mannafla, keppa um hæft fólk, keppast við að ná fyrirtækjum og atvinnustarfsemi inn á sín svæði. Það veltur mikið á samgöngum. Ég vildi aðeins fá að leggja orð í belg varðandi það.

En svo er annað sem ég er hugsi yfir. Hv. þingmenn í hv. samgöngunefnd eru farnir að semja undir þinglok um afdrif mála og einstakra tillagna í sambandi við samgönguáætlun. Nú er skyndilega komin upp á borðið tillaga, skilst mér, um að veita 5–10 millj. kr. rannsóknarfé vegna jarðgangagerðar í Fljótum, sem ég skal ekki leggjast á móti, enda er ég aldrei á móti jarðgöngum. En það skýtur skökku við að slík tillaga skuli fram komin á síðustu metrunum þegar fyrir liggur formlegt mál í þinginu sem lýtur að því að koma Álftafjarðargöngum inn á samgönguáætlun, bráðnauðsynlegu umferðaröryggismáli sem í tvígang hefur verið flutt þingsályktunartillaga um í þinginu, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta. Það er samgöngubót sem minni hluti samgöngunefndar vakti sérstaklega athygli á í minnihlutanefndaráliti sínu. Ég vil bara upplýsa að þó að ég sé ekki í hv. samgöngunefnd er ég tilbúin með breytingartillögu við samgönguáætlun sem lýtur að því að það fari að minnsta kosti jafn miklir fjármunir til rannsókna og undirbúnings að því að gera fýsileikakönnun eða vinna með öðrum hætti faglega að undirbúningi þess að koma Álftafjarðargöngum inn á samgönguáætlun. Þar er ekki verið að fara fram á annað en að bráðnauðsynleg samgöngubót sem leysir af hólmi Súðavíkurhlíðina með sínum 22 snjóflóðagiljum sem úr falla flóð, bæði krapa- og snjóflóð, í verstu veðrum, stundum öllum í einu, samtímis, verði tekin til faglegra efnisátekta svo hægt sé að koma þeim í forgangsröðunina á samgönguáætlun. Ekki er verið að fara fram á annað. Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá skynsemi í því að koma þeim göngum inn á samgönguáætlun og verja einhverjum fjármunum, þó að þeir séu ekki miklir, kannski 5–10 millj. kr. til að koma því máli áleiðis. Ég mundi fagna því ef það tækist. Kannski þarf ég ekki að leggja fram þessa breytingartillögu, kannski endurskoða menn afstöðu sína eða sýna vilja í hv. samgöngunefnd til að bæta þessu við. En það er eiginlega ekki ásættanlegt að á síðustu metrum samgönguáætlunar séu að koma inn einhverjar framkvæmdir sem hvergi og aldrei hefur verið fjallað um í málinu sjálfu á meðan annað er látið sitja á hakanum, eins og sú framkvæmd sem ég nefndi.

Álftafjarðargöngin eru nefnilega ekki bara mikilvæg sem greiðari leið milli byggðarlaga, þau eru hreint og klárt öryggismál vegna þeirrar miklu hættu sem skapast á Súðavíkurhlíðinni alla jafna á vetrum og eru af fagaðilum metin hættulegasti vegurinn vegna ofanflóðahættu (Forseti hringir.) eins og sakir standa eftir að vegurinn var lagður af um Óshlíð með Bolungarvíkurgöngum. Það á því að vera ljóst hvað hér er í húfi.