145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:40]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð hugmynd. Þegar ég hugsa um vegtolla, það fyrsta sem mér dettur í hug eru einkaframkvæmdir, en það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta þarf náttúrlega ekkert að vera í einkaframkvæmd, þetta getur líka oft verið á vegum ríkisins eins og hefur sýnt sig víða annars staðar. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að skoða og ég held að það sé ekki of seint að fara að skoða t.d. norska módelið þegar kemur að gjaldheimtu fyrir ákveðna vegi. Þetta hefur líka jákvæð umhverfisáhrif því að það hvetur fólk til að nota almenningssamgöngur. Sem dæmi í Bergen, ef farið er frá ysta hluta Bergen niður í bæ þarf að borga vegtolla á tveimur, þremur köflum. Fólk er hvatt til þess að nota „bybanen“ svokallaða, með leyfi forseta, eða léttsporvagninn til að minnka umferð inni í bænum. Þetta hefur náttúrlega jákvæð áhrif á umhverfið. Við notum þá ekki öll einkabílinn sem er náttúrlega slæmur fyrir umhverfið. Þetta er framlag þeirra til loftslagsmarkmiðanna sem við erum einfaldlega allt of metnaðarlaus í. Mig langar til að athuga, er hv. þingmaður ekki bara með mér á því að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða í framtíðinni? Er það ekki hreinlega framtíðin að reyna í raun og veru að minnka ásókn í einkabílinn með því að vera með vegtolla, með því að vera með þægilegar almenningssamgöngur í hjarta bæjarins eða til hjarta bæjarins frá úthverfunum og stuðla þannig að því að vegirnir borgi sig sjálfir að einhverju leyti og jafnframt að líta til umhverfisáhrifa.