145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hér er mjög athyglisverð umræða í gangi um samgöngumál. Ef menn velta því fyrir sér hvað eigi að ráða röð samgönguframkvæmda, hvar eigi að bera niður þegar kemur að ráðstöfun opinbers fjármagns í uppbyggingu á samgöngukerfinu, þá hlýtur umferðaröryggi að vera mjög ofarlega á blaði. Auðvitað eru alls konar byggðarlegir hagsmunir og atvinnulegir hagsmunir í húfi, en umferðaröryggi hlýtur að vera það sem við setjum í fyrsta sæti þegar að því kemur að ákvörðun um það í hvað fjármagn skuli fara. Hin svokallaða núllsýn sem Vegagerðin hefur haft til hliðsjónar í störfum sínum er mjög jákvæð, þ.e. að reyna að haga uppbyggingu samgöngumannvirkja eða vegamannvirkja þannig að reynt sé eftir fremsta megni að draga úr umferðarslysum, að það sé alla vega ekki samgöngukerfið sem valdi slysunum, eitthvað í uppbyggingu vegarins sem geti valdið auknum skaða. Auðvitað á að reyna að halda slíka sýn í heiðri eftir fremsta megni. Ég hef alltaf verið hlynntur því að menn leiti allra leiða til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir. Þó að á endanum sé það þannig að samgöngumannvirkin verði eign samfélagsins skiptir kannski ekki alveg máli hver sá aðdragandi er.

Fyrir um það bil sjö til átta árum voru miklar vangaveltur um það í íslenskri pólitík að taka upp vegtolla í auknum mæli og nota einhvers konar rukkunarkerfi til að fjármagna framkvæmdir. Þá höfðu menn miklar áhyggjur af því að það gæti orðið umsvifamikið og stangaðist kannski á við persónuverndarsjónarmið, að hægt væri að sjá hvar hverjir voru á ferðinni. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að síðan hefur tækninni fleygt það mikið fram að hægt á að vera með einföldu símaappi að innheima fyrir afnot af vegi. Það góða við það að vera með rafræna notendaskrá yfir samgöngumannvirki er að hægt væri að stýra umferðinni á margvíslegan hátt. Hægt væri að taka tillit til félagslegra sjónarmiða, að reyna að auka umferð á þeim tímum þegar minna álag er, þ.e. að það mundi kosta minna að aka fyrir tiltekna álagspunkta. Hægt væri að veita námsmönnum, öryrkjum og eldri borgurum sérstakan afslátt. Hægt væri að hafa lægra gjald eftir því sem maður mengar minna og þar fram eftir götunum, bara með því að skrá tegund ökutækis, með því að skrá um hvers lags ferðalag sé að ræða o.s.frv. væri hægt að innheimta þannig að það skilaði tekjum, að það stæði undir þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt er að ráðast í. Ég er sannfærður um að á sama tíma væri hægt að gæta að persónuverndarsjónarmiðum.

Hægt er að stilla þau símtæki sem við notum flest frá degi til dags þannig að einhver gæti í raun verið að fylgjast með ferðum manns allan daginn. Það er hægt að vita, út frá þeim tækjum sem fólk er með í vösum sínum og hefur hjá sér, jafnvel þegar það sefur, hvar viðkomandi er staddur. En það er líka hægt að stilla þau þannig að það komi ekki fram. Það er auðvitað nokkuð sem menn þurfa að hafa í huga. Tæknin hefur búið til möguleika á því að gera meira og fyrr og hraðar. Og með því að gera meira og vera með öruggari vegi aukum við umferðaröryggi. Við fækkum slysum. Það er það sem er mikilvægast af öllu og það er það sem við eigum að horfa í og láta önnur sjónarmið frekar mæta afgangi.