145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka fram, og er þar á svipuðum nótum og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, að mér finnst mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að það er ekki skynsamlegt á nokkurn hátt að stjórnmálamenn ákveði vexti. Það var einu sinni þannig og það er blessunarlega búið að koma á því fyrirkomulagi að við aðskiljum þá ákvarðanatöku frá okkar störfum. Ákvarðanir um stýrivexti eru teknar upp í Seðlabanka af fagaðilum þar og ég er ekki viss um að stjórnmálin mundu nokkurn tímann standast alls konar þrýsting. Menn gerðu það ekki þegar fyrirkomulagið var öðruvísi. Það er erfitt að hafa vexti háa, en það kunna hins vegar að vera mjög ríkar efnahagslegar ástæður fyrir því að hafa lántöku dýra og reyna að auka sparnað í samfélögum. Það er gert með háu vaxtastigi. Það er auðvitað stýritæki.

Auðvitað væri yndislegt, og ég hef margoft lýst því í þessum ræðustól, að við reyndum að koma hér á samfélagi þar sem við gætum treyst því að vextir á húsnæðislánum væru kannski 2–3%, svo ég sé hófsamur, sums staðar eru þeir lægri en það, og að við gætum treyst því. En ég held að maður verði líka að vera ærlegur og átta sig á því og horfast í augu við að þau skilyrði eru ekki enn þá fyrir hendi í íslensku samfélagi að hægt sé að bjóða óverðtryggð fasteignalán á 2% vöxtum. Ég er bara að tala um fasteignalán vegna þess að mér finnst þau svolítið mikilvæg í þessu samhengi, þau eru lán til neytenda til langs tíma. Af hverju er þetta ekki hægt eins og er? Það er mikilvæg spurning. Ég er ekki að segja að þetta verði aldrei hægt, en af hverju er þetta ekki hægt núna? Við erum nú að upplifa mjög mikinn uppgang eftir rosalega mikið samdráttarskeið. Klassísk, hagfræðileg rök segja að þá sé mjög vont að slaka á varðandi stýritæki eins og vexti vegna þess að þá getum við bara misst samfélagið í þenslu. Það gerðist í aðdraganda hrunsins. Svo eru vextir auðvitað mælikvarði á traust. Ég held að ekki hafi enn þá náðst að skapa þannig traust á Íslandi, einfaldlega vegna skorts á samtali, ég hef orðið vitni að því frá degi (Forseti hringir.) til dags, til grundvallarstoða efnahagslífsins (Forseti hringir.) þannig að vextirnir endurspegli það. Svo erum við með minnstu mynt í heimi sem er í ofanálag (Forseti hringir.) mikið vandamál.