145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[10:08]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Ég kem upp til að gera grein fyrir breytingartillögu sem er á þskj. 1797, en tilefni tillögunnar er að við yfirlestur málsins, ásamt þeim breytingum sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til við 2. umr., kom í ljós að 4. mgr. 33. gr. eins og frumvarpið er orðið eftir breytingar við 2. umr. er ofaukið og færi því betur á að hún falli brott. Það er efni þessarar breytingartillögu.

Virðulegur forseti, hæstv. ráðherrar, hv. þingmenn og ágæta starfsfólk Alþingis. Þetta er líklega í síðasta sinn sem ég tek til máls hér á Alþingi og vil nota það tækifæri til að færa ykkur öllum mínar bestu þakkir fyrir góð kynni og ánægjulegt samstarf. Ég er þakklátur kjósendum fyrir að hafa veitt mér þann heiður að starfa sem þingmaður að þeim einstaklega stóru og vandasömu málum sem Alþingi hefur fengist við á þessu kjörtímabili. Megi gæfan fylgja ykkur öllum. Takk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)