145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

félagsleg aðstoð.

776. mál
[10:29]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur upp af ánægjulegra tilefni. Þó svo að hér sé lagt upp með nefndarálit með frávísunartillögu, sem oft er ekki endilega gott, þá er það í þessu tilviki mjög gott. Hér er verið að beina ákveðnu mannréttindamáli í réttan farveg. Málið snýst um það að í reglugerð hefur um nokkurt skeið, í reglum um bifreiðastyrki til fatlaðs fólks, verið það skilyrði að bifreiðastyrkir sem veittir eru samkvæmt heimildarákvæði í lögum um félagslega aðstoð skuli einungis veittir þeim sem hafa ökuskírteini sjálfir eða ef einhver annar á heimilinu er með ökuréttindi. Þetta er náttúrlega ótrúlegt ákvæði og ég veit að margir þingmenn hafa gert atlögu að því og reynt að fá því breytt. Það er náttúrlega augljós ómálefnaleg mismunun að gera þá kröfu til ákveðins hóps sem af augljósum ástæðum þarf styrki til bifreiðakaupa, þarf að ferðast eins og við, að hafa annaðhvort ökuréttindi, sem þetta fólk margt hvert getur augljóslega aldrei fengið, eða þurfa að búa með einhverjum sem hefur ökuréttindi. Það gengur ekki að gera þá kröfu til fólks sem vill lifa sjálfstæðu lífi, og vill haga sínu lífi eins og það kýs, að það þurfi að búa með einhverjum sem hefur ökuréttindi til þess að fá bifreiðastyrk.

Það er ánægjulegt að eftir að ég lagði þetta mál fram í sumar og nú á síðustu dögum hefur átt sér stað mjög gott samtal við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur, þar sem komið hefur í ljós að hún er algjörlega sammála þessu. Ég heyri ekki betur en þessu reglugerðarákvæði þurfi að breyta. Ekki síst í ljósi þess að það færist mjög í vöxt með persónulegri aðstoð, notendastýrðri persónulegri aðstoð, og beingreiðslusamningum fatlaðs fólks við sveitarfélög, að fólk geti lifað sjálfstæðu lífi, að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og hagað lífi sínu eins og það kýs með aðstoðarfólki. Það er þá oft aðstoðarfólkið sem keyrir bílinn og ekki er hægt að gera þá kröfu að aðstoðarfólkið þurfi að hafa lögheimili hjá viðkomandi einstaklingi. Það er því orðið mjög mikilvægt að breyta þessu.

Það varð úr, eftir samtal okkar hæstv. ráðherra, að betur færi á því að breyta reglugerðinni í stað þess að setja það í lög að óheimilt verði að mismuna með þessum hætti. Það er þá samkomulagið sem liggur til grundvallar þessari frávísunartillögu að frumvarpinu er vísað til ríkisstjórnar og þar með til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og henni falið að breyta reglugerðinni. Eins og ég skil það verður það gert í dag eða á morgun með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um og með ákveðnum skilyrðum sem ráðuneytið telur æskilegt að setja. Þetta þýðir það efnislega að reglugerðinni verður breytt á þann veg að það hreyfihamlaða fólk sem býr sjálfstætt og er með persónulegan aðstoðarmann samkvæmt samningi við sveitarfélag getur fengið bifreiðastyrki algjörlega óháð því með hverjum það býr eða hvort það hefur ökuréttindi sjálft.

Ég fagna þessu mjög. Þetta er framfaraskref. Þarna er eytt ákveðnu máli sem skiljanlega hefur farið mjög í taugarnar á fólki um langa hríð, vegna þess að þetta var auðvitað ekkert annað en ómanneskjuleg mismunun. Það er ánægjulegt að mönnum er það ljóst núna og ætla að breyta þessu hratt og vel.