146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með fyrsta fjárlagafrumvarpið sem gert er á grunni laga um opinber fjármál. Ég get heils hugar tekið undir margt sem þar er undir, m.a. að við venjum okkur öll hér í þingsalnum á agaðri vinnubrögð í tengslum við fjárlög, ýtum undir langtímahugsun, stöðugleika og hallalausan ríkisrekstur.

En ég vek líka athygli á því að við erum í mjög jákvæðu ferli við að lækka skuldir hins opinbera. Á næsta ári mun skuldahlutfall heildarskulda ríkisins vera nærri 40%. En eftir stendur að vaxtakostnaður hins opinbera, Íslands, er sá langhæsti og mesti í Evrópu, miklu hærri en Grikklands, Spánar, Portúgals, Írlands. Hann er langmestur hér. Eftir stendur að þó að fari allt á besta veg hér á Íslandi mun vaxtakostnaður Íslands vera áfram mjög hár. Það er að mínu mati vegna þess að okkur vantar trúverðuga peningamálastefnu.

Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er hægt að gera til að lækka (Forseti hringir.) þessa óþolandi vaxtabyrði bæði ríkisins, hins opinbera, en líka fólks og fyrirtækja?