146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það eru fleiri misbrestir í skjalinu en hv. þingmaður nefnir. Hið nýja verklag og öll umgjörðin um fjárlagagerðina er stórt og mikið verkefni. Rétt eins og kom fram á fundi hv. fjárlaganefndar í morgun hafa ráðuneyti verið, frá því að lögin voru samþykkt, það liggur við að segja á haus við að tileinka sér þau vinnubrögð sem þarf. Það kom líka fram í þeirri kynningu, þar sem við ræddum breytta umgjörð enn og aftur, að það myndi líklega taka fimm til tíu ár að innleiða hið nýja verklag að fullu. Ég tek eftir því, og vakti athygli sveitarstjórnarmanna sérstaklega á því síðastliðið vor, af því að ég held að ekki hafi alveg allir áttað sig á því hversu stór breyting þetta er, að fjárreiðuumræðan fer núna fram á vorin. Við fengum ótrúlega fáar umsagnir í umfjölluninni í vor og áreitið vegna breytinganna var ótrúlega lítið gagnvart nefndinni, ég vil leyfa mér að nefna það. Það segir mér bara eitt, þ.e. að ekki eru allir komnir með það í puttana hvernig hið nýja fyrirkomulag virkar.

Varðandi spurningar hv. þingmanns ætla ég að leyfa mér að geyma þær og fleyta þeim spurningum áfram til ráðuneytisins þegar hv. fjárlaganefnd hittir ráðuneytið á fundum sínum, og spyrja þá sérstaklega út í þessa aðgerðaáætlun og töflu. En ég vek aftur athygli á því að það mun taka mjög langan tíma að innleiða ný vinnubrögð.