146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra. Eins og kemur fram í frumvarpinu hafa efnahagsaðstæður hér á landi farið batnandi undanfarin ár. Flestir hagvísar sýna merki um efnahagslegt framfaraskeið út frá hagvexti um þessar mundir og sýna líka skýr merki um áframhaldandi hagvöxt næstu ár, þó að hann muni dragast verulega saman á næstu árum. Eins og áður hefur komið fram í ræðum þingmanna er um að ræða sjötta árið í röð sem við upplifum vaxandi hagvöxt. Var hann kraftmestur 2013 og nú á síðastliðnu ári. Eins og við munum vonandi sem flest snerist hagkerfið við úr samdrætti í hagvöxt þegar á síðari hluta árs 2010, eftir hrun, hélt áfram árið 2011 og svo árið 2013.

Eins og kemur fram í efnahagsforsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár mun hægja verulega á hagvexti á næstu árum samkvæmt efnahagsspá Hagstofunnar sem birt var í nóvember síðastliðnum. Við sjáum skýr merki um verulegt þensluskeið í uppsiglingu ef það er ekki nú þegar hafið. Þessi þenslumerki eru sígild og blasa við okkur ef við viljum sjá þau. Við sjáum þaninn fasteignamarkað. Við sjáum spennu á vinnumarkaði. Við sjáum stóraukinn innflutning sem birtist í tæpum 100 milljarða vöruskiptajöfnuði á þessu ári eingöngu, en umfangsmikil þjónustuviðskipti ferðaþjónustunnar vega upp þann vöruskiptajöfnuð og halla.

Fleiri merki valda áhyggjum eins og það að grundvöllurinn fyrir lægri verðbólgu skýrist að stærstum hluta af lækkandi olíuverði og hrávöruverði á heimsvísu. Styrking krónunnar mun því, ef fram heldur með sama hætti, hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt hagkerfi eins og hæstv. fjármálaráðherra kom sjálfur að í andsvari áðan.

Fleiri varúðarmerki sem nefna má eru stöðnun í framleiðni þar sem verulega hefur dregið úr vexti mögulegrar framleiðslu í hagkerfinu og framleiðsluslaki, sem þarf að vera til staðar, er horfinn. Ójafnvægi hefur myndast á milli heildareftirspurnar og framleiðni. Nú reynir á. Við þessar viðkvæmu aðstæður reynir á ábyrga stjórn ríkisfjármála eins og hæstv. fjármálaráðherra benti sjálfur á í ræðu sinni. Stór ef ekki stærsti hagstjórnarlegi ábyrgðarhluti þeirra sem stýra munu ríkisfjármálunum á næstu árum er ekki bara að greiða samviskusamlega niður skuldir ríkissjóðs heldur líka að gera allt sem hægt er til að mynda eins mikinn afgang af ríkissjóði og mögulegt er til að geta staðið undir þeim ábyrgðarverkefnum sem falla á ríkið sjálft. Hver eru þau verkefni? Þau snúast um að stýra nauðsynlegum fjármunum okkar allra inn í heilbrigðismálin, menntamálin, velferðarmálin, samgöngumálin og umhverfismálin.

Því miður hafa aðgerðir hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar, sem hann situr enn í, orðið til þess að ríkissjóður hefur staðið frammi fyrir tekjutapi á tímum hagvaxtar, tekjutapi sem áætlað er að hlaupi jafnvel á 50 til 60 milljörðum. Það eru fjármunir sem hæstv. fjármálaráðherra fyrirverður sig fyrir að sækja þó að þá fjármuni sé að sækja til stórfyrirtækja sem hafa sýnt fram á stöðugan tekjuafgang og stórfelldan hagnað og líka til stórefnafólks sem er sannarlega þess megnugt að bera örlítið meiri byrðar en aðrir. Fyrir þessa fjármuni hefði til að mynda mátt styrkja mun rausnarlegar við Landspítalann en fram kemur í fjármálafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sem við ræðum nú. Í því kemur fram að þrátt fyrir þrábeiðni, eða réttara sagt neyðarkall, stjórnenda Landspítalans, um að þjóðarsjúkrahúsið þurfi um 5,5 milljarða til að halda þjónustu í horfinu og um 11 milljarða til að bæta við þjónustuna, þá leggur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til heila 4 milljarða og dregur því hressilega úr fjárframlagi til Landspítalans; 4 milljarðar sem innihalda launabætur af hálfu fjármálaráðherra, ekki fjármuni sem eiga að fara í þjónustu við sjúka eða viðhald tækja heldur verðbætur og launabætur.

Hvað þýðir þetta í raun fyrir þjóðarsjúkrahúsið? Hér liggur bein leið til áframhaldandi niðurskurðar hjá Landspítalanum. Hér blasir það við að viðbrögð stjórnenda spítalans við þessari ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem er þvert á kosningaloforð flokkanna um að bæta í heilbrigðiskerfið, verða þau að skerða verður verulega þjónustu við sjúka. Sú þjónustuskerðing mun fyrir víst lenda á öldruðum sjúklingum sem hefur verið komið fyrir á Landspítalanum, því að ekki hefur verið búið svo um hnútana, af hálfu heilbrigðisráðherra eða fjármálaráðherra, að tryggja veiku, öldruðu fólki viðunandi þjónustu á öðrum vettvangi en á yfirfullum Landspítala. Aldraðir sjúklingar verða þau sem finna fyrst fyrir niðurskurðarkröfunni sem felst í þessu lága framlagi í fjárlagafrumvarpinu miðað við þörfina.

Hver er sýn hæstv. fjármálaráðherra, sem ekki er hér í salnum, þegar kemur að því að sinna þessum hópi sjúklinga sem telur að minnsta kosti um 150 manns í dag? Á þessi sjúklingahópur aldraðra að fara bara heim til sín? Hvernig á að tryggja viðunandi þjónustu við sjúklinga á Landspítalanum, viðunandi starfsskilyrði heilbrigðisstarfsfólks sem vinnur við tvöfalt meira álag en kollegar þeirra á sjúkrahúsum í nágrannalöndunum? Hvernig á að tryggja nauðsynlegt viðhald tækja á spítalanum? Sumum finnst ég kannski hljóma eins og gömul plata, en kannski hljóma ég frekar eins og margir í hópi þeirra tæplega 87.000 manna sem rituðu undir áskorun um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Það er alveg kýrskýrt að þeirri áskorun og því ákalli sem heyrst hefur í samfélaginu á nýafstöðnu kjörtímabili er ekki svarað í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er mikið áhyggjuefni.

Ég játa líka að það er umhugsunarefni og áhyggjuefni fyrir undirritaðan þingmann að forgangsröðun núverandi ríkisstjórnarflokka við endurreisn heilbrigðiskerfisins birtist líka hér með skýrum hætti þegar framlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru dregin saman um 4 milljónir frá síðasta ári, en framlög til einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgar eru aukin um 1,5 milljarða vegna nýs rammasamnings um rekstur hjúkrunarheimila. 4 milljónir í mínus á móti 1,5 milljörðum í einkareknar heilsugæslustöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó er skemmst að minnast þess að forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins benti á að þrátt fyrir að aukið fjármagn hefði verið veitt til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á síðasta ári þurfti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að taka á sig mikinn niðurskurð í kjölfar hrunsins og hefur ekki náð að rétta sig við frá þeirri kröfu og frá þeim tíma. Á sama tíma, frá hruni, hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 17.000. Árið 2016 var Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins með 9% undir því fjármagni sem hún hafði til umráða árið 2008 og fær núna 4 milljónum minna en á síðasta ári. Svona er forgangsröðunin við endurreisn höfuðborgarsvæðisins að styðja einkareknar heilsugæslustöðvar fram yfir hinar. Það er pólitík, enda er fjárlagafrumvarpið pólitískasta plagg hverrar ríkisstjórnar jafnvel þó að um sé að ræða starfsstjórn.

Heilsugæslustofnanir á landsbyggðinni fá ekki heldur það sem þær mundu gjarnan vilja fá samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi. Ábyrg stjórn ríkisfjármála er nefnilega ekki bara sú að sýna góðar tölur á súluritum og guma sig af þeim, heldur felst ábyrg stjórn ríkisfjármála í því að forgangsraða og stýra opinberum fjármunum í þágu almennings og fólksins í landinu, að standa undir þeirri ábyrgð sem felst í því að standa vörð um og styrkja heilbrigðiskerfið, menntamálin, skólana, sem hér hefur verið minnst á og talað um, velferðina, sem við eigum öll jafnan aðgang að, og tryggja að umhverfismál séu höfð að leiðarljósi við allar opinberar ákvarðanir, líka við fjárhagslegar ákvarðanir.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri að þessu sinni en ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið um góðar óskir til nefndarmanna fjárlaganefndar í framhaldsvinnunni. Ég óska þeim góðs gengis við að takast á við þetta fjárlagafrumvarp. Þetta er, eins og áður hefur verið sagt, eitt pólitískasta fjárlagafrumvarp sem við höfum séð á þessu kjörtímabili.