146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að ábyrg notkun á almannafé er einmitt eitt helsta hlutverk okkar á þingi. Það er rosalega mikilvægt að hafa í huga, sérstaklega þegar hv. þingmaður talar um einkarekstur. En yfirleitt erum við að tala um einkarekstur þar sem almannafé er einnig notað til styrktar rekstrinum, með almannatryggingum eða öðru. Þetta er smááhugamál hjá mér, ég vil eiginlega ekki kalla það einkarekstur, mér finnst það vera annað. Einkarekstur þar sem hið opinbera borgar með finnst mér vera meira verktaka eða eitthvað því um líkt. Þetta er kannski hugtakanotkun sem væri þægilegt að hafa skýrari. Mér finnst einkarekstur vera þannig að menn eru algjörlega á eigin forsendum og viðskiptavinir borga allan hlutann.

Aðeins að uppbyggingu ferðamála. Nú er það svo að af þeim málaflokkum sem við erum að tala um núna í fjárlagafrumvarpinu eru ferðamál minnsti málaflokkurinn, það er aðeins æðsta stjórnsýsla sem er minni eða eitthvað því um líkt, þrátt fyrir að ferðamenn borgi í raun heilan helling, eins og hv. þingmaður nefndi, í ríkissjóð. Þarna kemur aftur á móti vandamálið, við erum ekki að byggja upp innviðina af því að allar tekjuleiðirnar þar sem ferðamenn borga fara í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga sem taka þátt í uppbyggingunni. Þar á meðal er gistináttagjaldið, sem ég nefndi áður, við erum að hækka það og það rennur ekki til sveitarfélaga sem ættu að vera hluti af samstarfinu í uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu.