146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru góðar fyrirspurnir, ég ætla að reyna að fara í gegnum þær á tveimur mínútum.

Mér finnst áhugavert það sem hv. þm. nefndi varðandi einkarekstur. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera með heilbrigðiskerfi sem er aðgengilegt fyrir alla, það sé jafnt fyrir alla. Það þýðir að menn noti þær leiðir sem eru bestar til að hlúa að þeim sem þurfa á þjónustu að halda. Þess vegna hafa menn nýtt einkarekstur, ekki bara hér heldur í nágrannalöndunum líka. Við tölum um að við viljum hafa þetta eins og annars staðar á Norðurlöndum. Öll heilsugæsla t.d. í Danmörku er einkarekin, bara svo dæmi sé tekið. Hins vegar er það greitt niður með opinberum sjóðum, það er hugsunin. Ef fólk fer á Salastöðina í Kópavogi, þar sem er einkarekin stöð, borgar það nákvæmlega jafn mikið og ef það færi á heilsugæslustöðina í Grafarvogi, en önnur stöðin er einkarekin og hin er rekin af ríkinu.

Með ferðaþjónustuna væri mikilvægt að allir myndu skilja hvað væri verið að tala um, af því að maður er iðulega í því að reyna að leiðrétta ákveðnar rangfærslur sem eru í gangi. Mér finnst ekki vera markmið að það séu peningar á fjárlögum heldur að við gerum þetta vel. Það sem hefur vantað eru rannsóknir, að vísu ekki bara í ferðamálum heldur almennt, þ.e. tölulegar upplýsingar varðandi atvinnugreinar eins og ferðaþjónustuna. Við þurfum að sjá til þess að þær séu til staðar. Ég held að skynsamlegast sé að þeir sem nota þjónustuna greiði fyrir innviðauppbygginguna eins og það er hægt, það sé almenna reglan. Hins vegar hafa sveitarfélögin mjög miklar tekjur af ferðaþjónustunni. Reykjavík með allar hótelbyggingarnar fær gríðarleg fasteignagjöld. Ef Reykjavík myndi notfæra sér það sem ýmis sveitarfélög gera er líka hægt varðandi t.d. Airbnb að setja rétt fasteignagjöld á það sem er nýtt í útleigunni þar, svo dæmi sé tekið. Ég held að það sé erfiðast fyrir litlu fámennu sveitarfélögin (Forseti hringir.) þegar kemur að ferðaþjónustunni. Ég get kannski rætt það aðeins á eftir.