146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 6. minni hluta (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með henni, eins og ég sagði áðan finnst mér þetta gríðarlega mikilvægt og tíðindi í sögu þingsins takist okkur ætlunarverk okkar. Ég ætla ekki að segja að þetta verði í eina skiptið sem við gerum það því að ég vona að við eigum eftir, ekki endilega að upplifa svona ástand en vinna miklu meira í þverpólitísku samkomulagi. Ég ítreka og rifja oft upp þegar við unnum útlendingalögin í þverpólitísku samstarfi og afgreiddum þau á þingi. Mér finnst það segja að við getum þetta, hvort sem það er ríkjandi meiri hluti eða minni hluti.

Mér finnst gott að heyra að hv. þingmaðurinn tekur sem fyrrverandi menntamálaráðherra undir það sjónarmið að framlögin til háskólanna eigi að vera samanburðarhæf.

Varðandi tillögur okkar í tekjumöguleikum núna er svo sannarlega ekki allt undir, það er alveg ljóst, ekki frekar en hjá öðrum. Lágmarksbreytingar voru lagðar fram og við höfum, eins og hv. þingmaður eflaust veit, lagt fram tillögur um að taka af auðlindagjöldum, bæði í sjávarútvegi og eins í orkugeiranum, og teljum fullt tilefni til að það sé gert, að sjálfsögðu skynsamlega. Það er enginn að tala um að fara í ofurtökur sem verða þess valdandi að eitthvað fari á hliðina, en við erum að sjálfsögðu nú sem endranær fylgjandi því að þeir aðilar sem hafa afnot af auðlindum okkar greiði fyrir það sanngjarnt gjald. Svo er það okkar að meta hvað við teljum sanngjarnt.