146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið afar fróðlegt að sitja í fjárlaganefnd þennan stutta tíma, þennan stubb, og við tekið til starfa við þessar skrýtnu aðstæður en það er hollt fyrir okkur öll að þurfa að horfast í augu hvert við annað og reyna að skilja hvað býr að baki þeim sjónarmiðum sem hver og einn fulltrúi úr mjög ólíkum flokkum sem tekið hafa sæti á þingi halda fram. Við náðum að klára verkefnið. Það eru ákveðin tímamót í því fólgin vegna þess að við hefðum á hverjum einasta fundi getað hætt við og reynt að fara einhverjar aðrar leiðir. Ég verð því að segja að það er ánægjulegt að við komumst alla þessa leið. Ég vil byrja á því, svo ég gleymi því ekki, að þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir mjög gott samstarf og þá sérstaklega formanni og varaformanni nefndarinnar, þeim hv. þm. Haraldi Benediktssyni og hv. þm. Oddnýju Harðardóttur. Hefði forysta nefndarinnar ekki haft trú á verkefninu frá upphafi værum við eflaust ekki hér í dag.

Hæstv. forseti. Við áttum okkur á því að við störfum við sérstakar aðstæður. Hér leggjum við fram tillögur sem þýða mikla útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi skattgreiðendur sem við megum ekki gleyma í allri þessari umræðu. Við verðum að gæta að því að halda okkur innan þeirra viðmiða sem ný lög um opinber fjármál setja okkur og helst að gera eilítið betur í að greiða niður skuldir o.s.frv. Það verður næstu ríkisstjórnar að meta þær breytingar sem þarf að gera, bæði á skattkerfinu og á þeim málaflokkum sem heyra undir hvert og eitt ráðuneyti. Það sem við erum að reyna að gera með breytingartillögum okkar er að setja meira fjármagn í stóra málaflokka og stýra þeim þannig að þeir nýtist sem best. Hér er um ákvörðun fyrir eitt ár að ræða. Reynt var að stilla breytingartillögunum þannig upp og setja þær í slík verkefni að aðallega væri horft til þess að hér er um einskiptisákvörðun þingsins að ræða. Síðan vitum við að mikið verkefni bíður þeirrar ríkisstjórnar sem mun væntanlega einhvern tíma taka við stjórnartaumunum í þessu landi. Við vonum það að minnsta kosti.

Ágæti forseti. Við erum einnig fulltrúar ákveðinna kjördæma. Mig langar að fara í stórum dráttum yfir helstu málefnin sem varða mitt kjördæmi, Suðurkjördæmi. Það er ánægjulegt að taka þátt í að klára stór verkefni. Nú horfum við fram á að hægt verði að skrifa undir samning um smíði nýs Herjólfs, verkefni sem hefur verið í gangi frá því fyrir hrun og ég hóf fyrst afskipti af þegar ég var sveitarstjóri í Rangárþingi eystra þegar höfn var okkur öllum að óvörum staðsett niðri í fjöru í því ágæta sveitarfélagi. Hófst þá undirbúningur að gerð hafnar og ferju sem enn stendur yfir vegna þess að framkvæmdin er tvíhliða, það var ljóst frá upphafi að bæði þyrfti nýja höfn og nýja ferju sem gæti átt gott aðgengi inn í höfnina. Hér tryggjum við að hægt verði að smíða þá ferju. Við þekkjum öll hversu mikilvægt það er fyrir hvert samfélag að hafa góðar samgöngur og hér tryggjum við Vestmannaeyingum góðar samgöngur til framtíðar. Ég er afskaplega ánægð að sjá það stóra verkefni komast í höfn.

Við bætum, eins og aðrir hv. þingmenn úr fjárlaganefnd hafa komið inn á, miklu inn í samgöngumálin. Við tókum umræðu um samgönguáætlun fyrir kosningar sem auðvitað er bólgnari en þær tillögur sem nú líta dagsins ljós og niðurstaðan verður í fjárlagafrumvarpinu. En við höldum okkur við að ná að klára þau verkefni sem þegar hefur verið samið um. Við getum talað þar um undirbúning á næsta áfanga í tvöföldun Suðurlandsvegarins. Við getum talað um Reykjaveginn sem hefur verið margfrestað að klára, um Biskupstungnabrautina og Stopp-verkefnið svokallaða á Suðurnesjum þar sem samfélagið allt kom saman og krafðist þess að við myndum, vegna umferðaröryggis, tryggja ákveðnar breytingar á Reykjanesbrautinni. Það er ánægjulegt að samkomulag varð og alger samstaða um það í fjárlaganefnd að greiða úr því verkefni. Stundum finnst manni að þegar verið er að setja saman samgönguáætlun eigi umferðaröryggismál að vera í raun það stærsta og það eina sem menn eiga að ræða þar. Það er ekki alltaf þannig en að sjálfsögðu eru mikilvæg sjónarmið líka höfð í hávegum þar. En við verðum að tryggja að fólkið okkar geti ekið um í eins öruggu umhverfi og hægt er.

Við höfum líka talað um það í samræmi við samgönguáætlun að auka fjármagn til viðhalds vega. Þetta er atriði sem hefur verið margrætt í þingsal. Dregið hefur verið úr fjárveitingum til viðhalds vegakerfisins frá því um hrun með sjáanlegum afleiðingum. Ofan á það hefur bæst aukin umferð, fjöldi túrista. Við verðum einfaldlega að bæta þarna í. Hér er verið að gera það. Inn í það verkefni kemur breikkun einbreiðra brúa sem eru afskaplega margar, sérstaklega á Suðausturlandi. Ég vonast til að við sjáum öll og finnum fyrir þeim breytingum sem þetta aukna fjármagn kemur til með að þýða fyrir vegakerfi landsins.

Það fylgja því ýmis verkefni að taka á móti fjölda erlendra ferðamanna. Löggæslan, sérstaklega á Suðurlandi, hefur haft í mörgu að snúast. Á síðasta ári var ákveðið að setja ákveðið fjármagn í hálendiseftirlit sem var tímabundin ráðstöfun sem féll úr gildi fyrir næsta ár og var ekki í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017. Samhljómur var um það í fjárlaganefnd að bæta í löggæsluhlutann og var sérstaklega tekið fram um það framlag sem kom til vegna ferðamanna og fór til tveggja embætta á Suðurlandi og Norðurlandi til þess að annast hálendiseftirlit að áhugi væri á því í nefndinni að það verkefni héldi áfram. Það er afskaplega gott. Því til viðbótar eru pottar inni í ráðuneytinu sem ráðuneytið mun síðan sjá um að færa yfir á embættin. Eins og margir hafa minnst á í dag stendur smíði löggæsluáætlunar yfir og hún verður höfð að leiðarljósi í því hvernig það allt saman verður gert.

Nýtt fyrirkomulag sem fylgir lögum um opinber fjármál þýðir að við verðum að gera hlutina aðeins öðruvísi en venjulega. En við höfum hér verkefni sem við höfum tekið inn í þingsal á hverju einasta ári í fjárlagagerðinni vegna þess að þau hafa ekki ratað inn í tillögur ráðuneytanna. Eitt slíkt verkefni er ART-verkefnið á Suðurlandi. Við í fjárlaganefnd leggjum til enn eina ferðina að fjármagn verði sett í það verkefni. Ég legg til að ráðuneyti velferðarmála taki þetta verkefni til sín og sjái til þess að það verði fjármagnað á fjárlögum þannig að við þurfum ekki á hverju einasta ári að standa í þessum sal, öll sammála um þetta verkefni, alltaf, allir flokkar, svo eru kosningar og það eru aftur allir þingmenn sammála um þetta verkefni. Af hverju í ósköpunum þurfum við alltaf að vera að þræla þessu í gegn á þingi? Þetta er alveg óþolandi. Með lögum um opinber fjármál á þetta ekki að þurfa að gerast svona. Auðvitað er það svo að sumir embættismenn hafa ekki áhuga á þessu verkefni. En þingið hefur áhuga á því. Þingið vill að það verði varanlegt. Eigum við ekki að heita því öll sem eitt að þetta verði í síðasta skiptið sem við þingmenn kjördæmisins ásamt öðrum áhugasömum þingmönnum um þetta mál þurfum að standa í þessum stól og tala fyrir tillögu um að setja það inn á fjárlög? Þetta er fáránlegt.

Að því sögðu ætla ég að vera aðeins glaðari og jákvæðari og ég er mjög glöð með að hérna sé alltaf stuðningur við þetta verkefni, ég ætla ekki að skamma þá sem gera vel. Við höfum í gegnum tíðina talað svolítið um háskóla og sameiningu háskóla. Þegar lítil eining rennur inn í stóra einingu, hvað gerist þá? Þá verður litla einingin oft svolítið út undan. Við erum með eitt slíkt dæmi og eina slíka fjárveitingu í tillögum okkar. Hún varðar Reyki. Garðyrkjuskólinn á Reykjum rann inn í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri á sínum tíma. Húsnæðið þar er ónýtt. Í vetur gerist það að þakið fýkur af og gerðar eru einhverjar bráðabirgðaviðgerðir. Við í þinginu þurfum að setja inn sérstaka fjárveitingu til þess að hægt sé að fara í neyðarendurbætur á húsnæðinu. Það er mjög miður að við þurfum að gera þetta, þetta á auðvitað að vera inni í fé skólans. Ég vonast til þess að búið verði þannig um hnútana að við getum tryggt að fólk geti verið þarna við kennslu og störf og nám án þess að vera í hlífðarbúnaði vegna leka og að við tryggjum að vel verði búið að skólanum. Ég tel að við þurfum í þessu samhengi að taka þá umræðu hvort Garðyrkjuskólinn á Reykjum eigi að fara undan Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Ég hvet okkur sem erum í salnum og þingmenn Suðurkjördæmis að beita okkur fyrir að skoða það með opnum huga hvort þessum hluta skólans sé betur borgið undir annarri yfirstjórn. Þetta er auðvitað ekki háskólanám. Á sínum tíma þegar skólinn færðist þarna undir var ég í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og við veltum því fyrir okkur hvort betra væri og lægi betur við að skólinn væri einfaldlega í samstarfi og undir Fjölbrautaskólanum á Suðurlandi. Ég tel að við þurfum að taka umræðu um það að nýju.

Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir ræddi aðeins um verkefnið á Laugarvatni. Þar erum við með annað dæmi þar sem lítil eining fer undir stóra, í þessu tilviki Íþróttakennaraskóla Íslands sem fór á sínum tíma undir Kennaraháskólann og síðan undir Háskóla Íslands. Háskóli Íslands tók á síðasta ári ákvörðun um að færa íþróttakennaranámið til Reykjavíkur, ákvörðun sem við þingmenn Suðurkjördæmis börðumst gegn og töldum óvandaða. Við töldum ekki fullreynt að styrkja námið á Laugarvatni sem hafði verið vistað þar við góðan orðstír í áraraðir en við lutum í lægra haldi í þeirri baráttu. Í þeim viðræðum var ákveðið og handsalað og undirrituð viljayfirlýsing um að styrkja starfsemi háskólans á Laugarvatni með því að koma þar á fót rannsóknarsetri. Hér tryggjum við fjármagn til þess að það verði að veruleika. Ég hvet Háskóla Íslands til þess að standa myndarlega að verkefninu og síðan eigum við ekki að þurfa að standa hér að ári að tryggja fjármagn í þetta aftur. Þetta verkefni á að vera hluti af rekstri háskólans og háskólinn á að sýna metnað í að sinna því vel. Ég hvet skólann til þess. Það var mikið áfall fyrir Suðurland og fyrir uppsveitirnar þegar þessi ákvörðun lá fyrir. Okkur ber einfaldlega skylda til að hlúa vel að þessu framtíðarfyrirkomulagi.

Við höfum rætt svolítið um dýpkunarframkvæmdir í höfnum. Það var búið að gera áætlanir um ýmsar framkvæmdir og undirrita samninga. Við tryggjum fjármagn til að hægt verði að klára það allt saman. Eitt af stærstu verkefnunum gagnvart okkur íbúum Suðurlands er auðvitað Þorlákshöfn. Við heyrðum fréttir af því í vikunni hvaða áhrif breytingarnar á höfninni hafa. Millilandasiglingar eru að hefjast frá Þorlákshöfn sem eru auðvitað bundnar þeirri forsendu að hægt verði að klára höfnina. Ég veit ekki hvort það vita það allir hér en Þorlákshöfn var á sínum tíma samstarfsverkefni Sunnlendinga allra. Þetta er höfnin okkar allra, þó að ég sé úr Landeyjunum þar sem var ekkert hægt að sigla fyrr en Landeyjahöfn kom til að vera, þá voru sveitarfélög um allt Suðurland sem settu fjármagn í að byggja höfnina í Þorlákshöfn vegna þess að hún nýtist okkur öllum. Þetta er okkar sameiginlega atvinnusvæði og við fögnum því að starfsemin þar blómstrar og þróast í enn fleiri áttir.

Við tökum ákveðin verkefni í fjáraukanum er varða náttúruhamfarirnar sem urðu á þessu ári. Ég ætla að fjalla um það í ræðu síðar í dag. En það er mikilvægt að líta á þetta allt í samhengi. Ég myndi segja að við værum með tillögum okkar í fjárlaganefnd að bregðast við öllum þeim bráðavanda sem við vitum af í okkar ágæta kjördæmi.

Heilbrigðismálin eru mál sem kosningarnar síðustu snerust að talsverðu leyti um. Hér eru tillögur um innspýtingu þar. Það er vel. En auðvitað er ljóst að til framtíðar litið verðum við að sjá til þess að eftirlitsaðilar með öllum þeim fjármunum sem fara inn í heilbrigðismálin séu til staðar og hafi tæki og tól til að sinna störfum sínum vel. Þótt það sé ekki stærsta tillaga okkar í nefndinni í fjármunum talið er það stór tillaga til framtíðar, við lið 32.10, þar sem við gerum tillögur um 30 millj. kr. tímabundið framlag sem er ætlað að efla eftirlitshlutverk landlæknisembættisins og Sjúkratrygginga Íslands vegna samninga við einstök hjúkrunarheimili. Við verðum að vita hvað við erum að kaupa fyrir skattfé almennings og hafa með því eftirlit að það sé allt saman gert með þeim hætti sem við, verkkaupinn, viljum. Það er alveg ljóst að við þurfum að styrkja stofnanir okkar. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að fjárveitingar til heilbrigðisráðuneytisins sjálfs hafi t.d. lækkað um 500–600 milljónir frá því um hrun og þar af leiðandi minnkar getan til þess að hafa eftirlit og yfirsýn yfir þetta risastóra heilbrigðiskerfi okkar og okkar stærsta útgjaldalið á fjárlögum. Við viljum laga þetta. Ég fagna því að öll nefndin var sammála um að setja aukna fjármuni í slíkt eftirlit. Við eyðum afskaplega miklum fjármunum í þetta kerfi, viljum að það sé gott, en viljum líka vita hvað er að gerast fyrir peningana sem við setjum í þetta.

Ágæti forseti. Það hefur verið mikil reynsla að fara í gegnum þetta ferli og maður var ekkert alltaf bjartsýnn á að þetta myndi ganga alla leið. En ég vonast til þess að við í þessum sal náum að samþykkja frumvarpið fyrir jól.